Körfubolti

Jón Axel ætlar að núllstilla sig og kenna Óla Óla körfubolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Axel Guðmundsson ræðir málin við Svövu Kristínu Grétarsdóttur.
Jón Axel Guðmundsson ræðir málin við Svövu Kristínu Grétarsdóttur. Vísir

Grindvíkingar fengu frábærar fréttir í vikunni þegar landsliðsmaðurinn Jón Axel Guðmundsson ákvað að spila með félaginu í Subway deildinni í vetur.

Jón Axel var búinn að vera að leita sér að liði úti og þess vegna byrjaði hann ekki tímabilið með Grindavík. Hann fékk ekkert tilboð sem heillaði hann nógu mikið.

„Ekkert sem mér fannst vera eitthvað betra en að koma aðeins heim og núllstilla sig. Fyrir mig fannst mér þetta vera besta ákvörðunin á þessum tímapunkti,“ sagði Jón Axel Guðmundsson í samtali við Svövu Kristínu Grétarsdóttur. Það er engin uppgjöf í kappanum þegar kemur að atvinnumennsku erlendis.

Klippa: Jón Axel: Nóg eftir af mínum ferli

„Ég er bara 25 ára núna og það er nóg eftir af mínum ferli. Það er gott að koma aðeins heim. Ég var búinn að vera sex ár úti núna samfellt og það er fínt að koma aðeins heim og fá að leika með strákunum. Reyna að kenna Óla Óla einhvern körfubolta,“ sagði Jón Axel í léttum tón.

En er Ólafur Ólafsson svona lélegur í körfubolta?

„Svona inn á milli. Stundum hittir hann og stundum ekki. Það þarf aðeins að bæta þetta,“ sagði Jón Axel í gríni um fyrirliða sinn hjá Grindavík.

„Ég er mjög spenntur persónulega að spila með Grindavík. Það er langt síðan ég spilaði hérna síðast og það hefur mikið breyst síðan ég var síðast á Íslandi,“ sagði Jón Axel.

„Það er gaman að fá Keflavík í fyrsta leik sem er alvöru áskorun. Það er mjög mikil spenna fyrir fimmtudeginum,“ sagði Jón Axel.

Hann er ekki búinn að ákveða það hvort hann klári tímabilið með Grindavík. „Á þessum tímapunkti er ég ekki kominn svo langt. Markmiðið er eins og ég sagði að komast út en það kemur bara þegar það kemur,“ sagði Jón Axel.

Fyrsti leikur Jóns Axel er á Keflavík í kvöld en hann verður sýndur beint á Stöð 2 Sport og hefst klukkan 20.15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×