Skoðun

Tungu­málið er lykillinn að full­veldinu

Ármann Jakobsson skrifar

Stríð geisar í Evrópu og orkukreppa sem afleiðing þess. Víða um lönd hafa lýðskrumarar náð sterkri stöðu með því að höfða til fordóma hrædds fólks sem er ógnað. Þá getum við prísað okkur sæl sem búum á Íslandi þar sem engin pólitísk kreppa ríkir og ekki sömu blikur á lofti í orkumálum. Í bili virðist efnahagslegu og stjórnmálalegu sjálfstæði Íslands ekki ógnað.

Það merkir þó ekki að engar hættur steðji að fullveldi Íslands og mesta hættan felst í því að þrengt er að íslensku af ofurvaldi ensku en Íslendingar hafa verið deigir við að kenna nýjum íbúum íslensku þó að það sé mannekla á landinu eins og bent hefur verið á. Auðvitað tala nýir íbúar landsins ekki íslensku frá upphafi og ef ekki verður tekið á er hætt við að litlir hvatar verði til að þeir læri málið. Þar með er sjálfstæði Íslands auðvitað ógnað því að ef íslensk tunga og íslensk menning hverfur fækkar mjög rökunum fyrir því að þessi fámenna þjóð sé sjálfstæð. Hér fer því ótvírætt mesta ógn sem hefur stafað að sjálfstæði Íslands seinustu áratugi.

Móðurmálið rammar inn hugsanir okkar og skilning á heiminum. Hverfi íslensk tunga verða allir íslenskir málhafar útlagar í heiminum eins og þýski heimspekingurinn Adorno skrifaði á sínum tíma um á áhrifamikinn hátt. Vöxtur og viðhald íslensku er því brýnt hagsmunamál fyrir okkur öll, ekkert ósvipað loftslaginu eða heilbrigðiskerfinu.

Úrræðið er einfalt: ný íslensk sjálfstæðisbarátta þarf að hefjast á því að margfalda íslenskukennslu nýrra íbúa með aðstoð hins opinbera. Um leið þurfa þeir aukin tækifæri til að rækta menntun heimalandsins en hver einasta sál sem hingað flytur þyrfti að njóta ókeypis íslenskumenntunar á þeim tíma dags sem hentar og síðan framhaldsmenntunar sem hefur verið af skornum skammti. Þetta er það sem langflestir innflytjendur vilja sjálfir: einn innflytjandi hefur kallað það „meistaranám í höfnun“ að búa á Íslandi án þess að kunna tungumálið því að leiðin að samfélagslegri þátttöku liggur um málið. Nú er þörfin því brýn fyrir fleiri og betri tækifæri til íslenskunáms.

Þessi nýja fullveldisbarátta verður sem betur fer ekki jafn kostnaðarsöm og baráttan við loftslagsógnina eða öldrun samfélagsins. En hún mun samt krefjast myndarlegs opinbers stuðnings. Enda er hér ekki um að ræða neitt smámál heldur fullveldi þjóðarinnar.

Höfundur er formaður Íslenskrar málnefndar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×