Körfubolti

„Sigurinn er held ég það eina jákvæða sem við getum tekið út úr þessu”

Siggeir F. Ævarsson skrifar
Finnur Freyr, þjálfari Vals.
Finnur Freyr, þjálfari Vals. Vísir/Hulda Margrét

Það var ekki áferðarfallegur körfubolti sem var boðið upp á í Grindavík í kvöld þegar Valsmenn lögðu heimamenn í jöfnum leik, 67-68, í Subway-deild karla í körfubolta. Finnur Freyr Stefánsson þjálfari Vals var hjartanlega sammála. Hann sagði að leikurinn hefði verið tilviljanakenndur á báða bóga en tók þó sigrinum fegins hendi.

„Sigurinn er held ég það eina jákvæða sem við getum tekið útúr þessu. Þetta var ljótt, við náum þarna einhverju smá mómenti þar sem við skorum einhverjar tvær körfur í röð. En þrátt fyrir það þá gerðum við heiðarlega tilraun til að tapa þessu í lokin. Við tökum sigurinn en við eigum langt í land, það er alveg ljóst.”

Það voru margar sérkennilegar senur undir lok leiksins og Grindvíkingar áttu góðan séns á að stela sigrinum eða senda leikinn í framlengingu.

„Þetta var bara „sloppy“ í alla staði. Mistök og menn að gleyma sér, léleg sóknarfráköst og svona. Þetta var langt frá því að vera áferðarfallegt. En við tökum sigurinn en við þurfum að spila töluvert betur ef við ætlum að gera eitthvað í þessari deild í vetur.“

Kári Jónsson er einn af burðarásum Valsliðsins en hann er búinn að vera meiddur síðan í sumar og var að spila sinn fyrsta leik í langan tíma. Það sást greinilega að hann er ekki 100% klár.

„Já hann er ryðgaður. Hann meiðist þarna í byrjun ágúst og er rétt farinn af stað. Eðlilegt að hann taki smá tíma í að finna smá rythma. Veit ekki hvort það hafi eitthvað riðlað liðinu en við vorum ólíkir sjálfum okkur miðað við hvernig við höfum verið hingað til á undirbúningstímabilinu. Þetta minnti kannski svolítið á fyrstu leikina. Við þurfum aðeins að girða okkur í brók. Við eigum risa bikarleik á mánudaginn og okkur verður slátrað með svona frammistöðu þar.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×