Viðskipti innlent

Gangi ekki að lykilstarfsmanni sé meinaður að­gangur að til­teknum lykil­upp­lýsingum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bjarni Bjarnason, forstjóri OR.
Bjarni Bjarnason, forstjóri OR.

Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, segir að það gangi ekki að framkvæmdastjóri fjármála fyrirtækisins sé meinaður aðgangur að tilteknum fjárhagslegum og rekstrarlegum upplýsingum fyrirtækisins, líkt og raunin er vegna fjölskyldutengsla framkvæmdastjórans við stjórnarformann Sýnar.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu Bjarna sem send var á fjölmiðla í kvöld. Tilefnið er yfirlýsing Petreu Ingileifar Guðmundsdóttur, stjórnarformanns Sýnar, þar sem hún greindi frá því að hún hafi ákveðið að draga framboð hennar til stjórnar Sýnar til baka. Ástæðan var að hennar sögn afarkostir sem OR hafði sett eiginmanni hennar, Benedikt K. Magnússyni, framkvæmdastjóra fjármála OR.

Sagði hún að Bjarni hafi nýlega tjáð Benedikt að hann gæti ekki haldið starfi sínu áfram hjá OR sæti Petrea áfram í stjórn Sýnar, vegna mögulegra ásýndar hagsmunaárekstra. Hún hafi því ákveðið að draga stjórnarframboð sitt á væntanlegum stjórnarfundi Sýnar til baka. Það væru hins vegar vonbrigði að OR hafi ekki séð aðra kosti í stöðunni.

Fær ekki aðgang að mikilvægum samningi Sýnar og Ljósleiðarans

Í yfirlýsingu Bjarna er tekið fram að framkvæmdastjóri fjármála OR beri ábyrgð á fjármálum allrar Orkuveitu samstæðunnar.

„Vegna tengsla framkvæmdastjóra við stjórnarformann Sýnar þarf að takmarka aðgang hans að fjárhagslegum upplýsingum tengdum Ljósleiðaranum sem er eitt af dótturfélögum OR. Það felur meðal annars í sér nýlegt samkomulag milli Sýnar og Ljósleiðarans sem er báðum fyrirtækjum mikilvægt,“ segir í yfirlýsingu Bjarna.

Benedikt hafi því ekki aðgang að samkomulaginu sjálfu né forsendum sem þar búi að baki.

„Það er mitt mat að til þess að framkvæmdastjóri fjármála geti sinnt starfi sínu með fullnægjandi hætti gangi ekki að honum sé meinaður aðgangur að fjárhagslegum og rekstrarlegum upplýsingum. Ég hef tjáð framkvæmdastjóra fjármála þetta. Tekið skal fram að umrætt mál er ekki á borði stjórnar OR heldur er það forstjóri OR sem ber ábyrgð á störfum framkvæmdastjóra fjármála,“ segir í yfirlýsingu Bjarna.

Vísir er í eigu Sýnar.


Tengdar fréttir

Hættir við framboð í stjórn Sýnar vegna afarkosta OR

Petrea Ingileif Guðmundsdóttir, stjórnarformaður Sýnar, hefur dregið framboð sitt til stjórnar félagsins til baka. Hún segir ástæðuna vera afarkosti sem OR setti eiginmanni hennar vegna meintra hagsmunaárekstra í tengslum við stjórnarsetu hennar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×