Körfubolti

Haukar upp að hlið toppliðsins eftir sigur gegn Grindavík

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Haukar unnu góðan sigur gegn Grindavík í kvöld.
Haukar unnu góðan sigur gegn Grindavík í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Haukar lyftu sér upp að hlið toppliðs Keflavíkur í Subway-deild kvenna í körfubolta er liðið vann góðan tólf stiga sigur gegn Grindavík í kvöld, 74-62.

Jafnræði var með liðunum í upphafi leiks, en það voru þó heimakonur í Haukum sem leiddu með þremur stigum að loknum fyrsta leikhluta, 21-18.

Haukakonur juku svo forskot sitt umtalsvert fyrir hálfleikshléið og skoruðu 23 stig gegn aðeins 14 stigum gestanna og staðan því 44-32 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Gestirnir frá Grindavík klóruðu þó í bakkann eftir hálfleik og minnkuðu muninn niður í átta stig fyrir lokaleikhlutann, en heimakonur endurheimtu tólf stiga forskot sitt fyrir lok leiks og unnu að lokum tólf stiga sigur, 74-62.

Keira Robinson var stigahæst í liði Hauka með 19 stig, en hún tók einnig 14 fráköst og gaf tíu stöðsendingar. Í liði Grindavíkur var Danielle Rodriguez atkvæðamest með 15 stig, 11 fráköst og fjórar stoðsendingar.

Haukar eru nú með sex stig eftir fjóra leiki og sitja við hlið Keflavíkur í toppsæti deildarinnar, en Keflvíkingar eiga þó leik til góða. Grindavík situr hins vegar í sjötta sæti deildarinnar með tvö stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×