Körfubolti

Frakkar á eftir NBA-stjörnu sem fékk nýlega bandarískan ríkisborgararétt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joel Embiid hefur spilað frábærlega með Philadelphia 76ers undanfarin tímabil.
Joel Embiid hefur spilað frábærlega með Philadelphia 76ers undanfarin tímabil. Getty/Tim Nwachukwu

Frakkar renna hýru auga til risastjörnu í NBA-deildinni og vilja að hann spila fyrir franska körfuboltalandsliðið á Ólympíuleikunum í París.

Joel Embiid er fæddur í Kamerún en var líka með franskt vegabréf. Það bjuggust allir við því að hann myndi spila fyrir franska landsliði á Ólympíuleikunum en svo tilkynnti kappinn á dögunum að hann væri nú kominn með bandarískan ríkisborgararétt.

Embiid getur því valið hvort hann spili með Bandaríkjunum eða Frakklandi á Ólympíuleikunum en eftir það val sitt þá getur hann ekki farið til baka.

Þrátt fyrir nýja vegabréfið þá segir ESPN frá því að Frakkar séu enn vongóðir um að hann spili fyrir þá á ÓL 2024 og jafnvel á heimsmeistaramótinu á Filippseyjum á næsta ári.

Embiid er einn besti körfuboltamaður heims og var stigakóngur NBA-deildarinnar á síðustu leiktíð. Hann hefur verið annar í kjörinu á mikilvægasta leikmanni deildarinnar.

Hann var með 30,6 stig og 11,7 fráköst að meðaltali með Philadelphia 76ers á síðustu leiktíð.

Það er ljóst að með Joel Embiid innan borðs þá væru Frakkar til alls líklegir á Ólympíuleikunum. Franska liðið fór alla leið í úrslitaleikinn á Evrópumótinu á dögunum og varð einnig í öðru sæti á síðustu Ólympíuleikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×