Körfubolti

Brittney mjög hrædd og óttast að hún gleymist í fangelsinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brittney Griner fyrir aftan rimla í réttarsalnum í Moskvu.
Brittney Griner fyrir aftan rimla í réttarsalnum í Moskvu. Getty/Pavel Pavlov

Bandaríska körfuboltakonan Brittney Griner er mjög langt niðri þessa dagana ef marka má orð eiginkonu hennar Cherelle Griner.

Cherelle Griner var gestur í viðtalsþættinum „CBS Mornings“ þar sem hún ræddi hlutskipti eiginkonu sinnar.

Áfrýjun Griner verður tekinn fyrir undir lok þessa mánaðar en hún var fyrr í haust dæmd í níu ára fangelsi fyrir að flytja eiturlyf inn í Rússland.

Griner var handtekinn á flugvelli í Moskvu í febrúar þar sem hún var á leiðinni til rússneska liðsins UMMC Ekaterinburg þar sem hún hefur spilað undanfarin ár á meðan WNBA-deildin er í fríi.

Griner hafði með sér minna en eitt gramm af hassolíu sem hún notaði í rafrettu sína en kannabis er ólöglegt í Rússlandi.

„Hún er mjög hrædd og óttast það að hún gleymist í Rússlandi,“ sagði Cherelle Griner en Bandaríkjamenn hafa verið í viðræðum við Rússa um að fá körfuboltakonuna aftur til Bandaríkjanna.

Hún var handtekin rétt áður en Rússar réðust inn í Úkraínu og mál hennar hefur verið beintengt Úkraínustríðinu og hörðum viðbrögðum Bandaríkjamanna og annarra þjóða við innrás Rússa.

Hér er á ferðinni ein besta körfuboltakona heims sem hefur unnið marga titla á sínum ferli, frábær miðherji sem er meðal annars þekkt fyrir að troða boltanum í körfuna.

Brittney Griner ræddi við eiginkonu sína í síma og sagði þá að henni liði eins og líf hennar skipti engu máli.

„Það er eins og þið öll skiljið ekki þörf mína til að komast aftur heim. Er ég einskis virði,“ hafði Cherelle eftir Brittney.

Brittney hefur áfrýjað dómnum og verður hún tekin fyrir 25. október næstkomandi.

Cherelle Griner hefur heyrt að eftir það verði Brittney flutt í vinnubúðir einhvers staðar í Rússlandi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.