Viðskipti innlent

„Mögulega erum við búin að gera nóg“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóra peningastefnu, fóru yfir ákvörðun peningastefnunefndar.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóra peningastefnu, fóru yfir ákvörðun peningastefnunefndar. Vísir/Vilhelm

Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, segir að 25 punkta hækkun stýrivaxta Seðlabankans nú sé vísbending um að Peningastefnunefnd sé ánægð með árangurinn sem náðst hefur með miklum hækkunum stýrivaxta síðustu misseri. Mögulegt sé að toppi stýrivaxtahækkana sé náð. Það ráðist þó af þróun hagkerfisins sem og niðurstöðu væntanlegrar kjarasamningalotu.

Tilkynnt var í morgun að vextir bankans yrðu hækkaðir um 0,25 prósentustig og eru þeir nú 5,75 prósent. Vextirnir hafa hækkað mjög skarpt frá því í maí á síðasta ári, þegar þeir voru 0,75 prósent.

Vísbendingar um að árangur sé að nást

Á fundi í Seðlabankanum þar sem Ásgeir og Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóra peningastefnu, fóru yfir ákvörðun peningastefnunefndar, var seðlabankastjóri spurður út í verðbólguhorfur næstu missera.

„Það hafa komið fram margar vísbendingar um að við séum að ná árangri. Tólf mánaða verðbólga er farin að lækka,“ sagði Ásgeir en ársverðbólga hefur lækkað úr 9,9 prósent í 9,3 prósent á milli mánaða.

„Við erum jafn vel að sjá verð lækka á íbúðamarkaði núna,“ sagði Ásgeir einnig og vísaði í að verðbólga hafi aðallega rokið upp vegna mikilla verðhækkana á fasteignamarkaði. Miklar hækkanir stýrivaxta undanfarin misseri af hálfu Seðlabankans hafa gert það verkum að vextir á íbúðalánum hafa hækkað. Sagði Ásgeir að það ásamt hertum lánþegaskilyrðum hafi kælt húsnæðismarkaðinn.

„Mögulega erum við búin að gera nóg. Það fer eftir því hvernig við sjáum þróunina næstu misseri,“ sagði Ásgeir og bætti við að mögulega væri stýrivaxtahækkunarferli Seðlabankans lokið, í bili.

„Mögulega erum við komin á þann stað núna að við séum að fara að sjá verðbólguhjöðnun, miðað við núverandi vexti. Við hins vegar vitum það ekki,“ sagði Ásgeir og lagði áherslu á Seðlabankinn myndi grípa til aðgerða, þar á meðal frekari stýrivaxtahækkana, ef á þyrfti að halda.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á fundinum í morgun.Vísir/Vilhelm

Það ylti á því hvernig raunhagkerfið þróast sem og hver niðurstaða næstu kjarasamningalotu, sem er framundan í vetur, verður.

Sagði Ásgeir þó að það að nefndin hafi aðeins ákveðið að hækka vextina um 0,25 prósentur ofan í 0,5 og 0,75 prósentu hækkanir væri ákveðin vísbending.

„Klár vísbending um það að nefndin er tiltölulega ánægð með árangurinn,“ sagði Ásgeir.


Tengdar fréttir

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.