Innherji

Tvö dótturfélög Orkuveitunnar ætla að sækja 50 milljarða í nýtt hlutafé

Hörður Ægisson skrifar
Bjarni Bjarnason er forstjóri Orkuveitunnar en hann gefið það út að hann muni láta af störfum 1. mars næstkomandi.
Bjarni Bjarnason er forstjóri Orkuveitunnar en hann gefið það út að hann muni láta af störfum 1. mars næstkomandi.

Tvö dótturfélög Orkuveitu Reykjavíkur, Ljósleiðarinn og Carbfix, áforma að sækja sér samanlagt um 50 milljarða króna í nýtt hlutafé á næsta ári til að standa undir þeim miklu fjárfestingum sem eru boðaðar. Áætlanir gera ráð fyrir að sú hlutafjáraukning verði að minnsta kosti að hluta til með aðkomu annarra fjárfesta en OR.

Í nýbirtri fjárhagsspá Orkuveitunnar fyrir árin 2023 til 2027 kemur fram að undirbúningur að sölu nýs hlutafjár í nýsköpunarfyrirtækið Carbfix standi nú yfir, eins og Innherji hefur áður fjallað um, til að fjármagna hluta þeirra fjárfestinga sem félagið hyggst ráðast í fyrir um 40 milljarða á tímabilinu. Verja á þeim fjármunum til uppbyggingar förgunarstöðva fyrir koldíoxíð og í frekari rannsóknir til að þróa Carbfix-aðferðina sem breytir gróðurhúsalofttegundinni varanlega í stein.

Umfangsmest eru áformin við Straumsvík, þar sem CODA-verkefnið verður byggt upp og fjárfestingar verða mestar á árunum 2024 og 2025. Carbfix hlaut nýlega 16 milljarða króna styrk frá Evrópusambandinu til uppbyggingar á móttöku- og förgunarmiðstöðinni Coda sem er sú fyrsta sinnar tegundar og er áætlað að starfsemi hennar hefjist um mitt ár 2026 en nái fullum afköstum árið 2032. Þegar stöðin nær fullum afköstum mun því sem jafngildir 65 prósentum af heildarlosun Íslands 2019 eða allt að þremur milljónum tonna af koltvísýringi vera fargað á hverju ári.

Borgarráð Reykjavíkur, eins og kom fram í umfjöllun Innherja, samþykkti í ágúst síðastliðnum að veita Orkuveitunni heimild til að stofna nýtt hlutafélag utan um rekstur Carbfix. Frá árinu 2019 hefur verið haldið utan um reksturinn í opinberu hlutafélagi, Carbfix ohf., sem útilokar að aðrir fjárfestar en opinberir aðilar geti lagt félaginu til áhættufé.

„Ljóst er að næsti kafli í þróun Carbfix og einstakra verkefna kallar á tugi milljarða íslenskra króna. Það er langt umfram þær fjárhæðir sem réttlætanlegt væri að rynnu úr borgarsjóði eða rekstri Orkuveitu Reykjavíkur,“ sagði í umsögn rýnihóps borgarráðs.

Fáist heimild til stofnunar á nýju hlutafélagi verður hafinn undirbúningur að fjármögnun Carbfix en horft er til þess að um 10 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði um 1,4 milljarða króna, af nýju hlutafé verði selt fyrir um 20 prósenta hlut. Samkvæmt því er Carbfix verðmetið á 50 milljónir dala, eða sem nemur 7 milljörðum króna. Fjöldi alþjóðlegra fjárfesta, þar á meðal Credit Suisse og og fjárfestingaarmur norska ríkisolíufélagsins Equinor, hefur lýst yfir áhuga á því að koma að uppbyggingu íslenska nýsköpunarfyrirtækisins.

Vilja fá nýja fjárfesta í hluthafahóp Ljósleiðarans

Í fjárhagsspá Orkuveitunnar, sem nær til Veitna, Orku náttúrunnar, Ljósleiðarans og Carbfix, kemur fram að áætlað sé að heildarfjárfestingar á tímabilinu til ársins 2027 muni nema um 184 milljörðum króna. Hrein ný lántaka verður um 80 milljarðar en á sama tíma er áformað að greiða niður lán um 86 milljarða. Þá munu eigendur OR, sem eru einkum Reykjavíkurborg, fá samtals um 27,5 milljarða króna í greidda arð.

Þá segir í fjárhagsspá Orkuveitunnar að Ljósleiðarinn, sem hefur verið að auka umsvif sín að undanförnu á fjarskiptamarkaði, sé með hugmyndir uppi um að fjármagna meðal annars uppbyggingu nýs landshrings fjarskipta og aðrar „nauðsynlegar fjárfestingar“ með auknu hlutafé í fyrirtækinu. Hömlur séu hins vegar á því að Orkuveitan leggi það til.

„Því er í spánni gert ráð fyrir aukningu hlutafjár með aðkomu annarra fjárfesta en OR, fáist til þess heimild eigenda OR,“ segir í tilkynningunni með fjárhagsspánni.

Innherji greindi frá því í síðasta mánuði að Ljósleiðarinn og Orkuveitan hefðu til skoðunar að hleypa utanaðkomandi fjárfestum inn í hluthafahóp félagsins.

Ljósleiðarinn, sem er alfarið í eigu Orkuveitunnar, sagði fyrst frá áformum um hlutafjáraukningu eftir að fyrirtækið samdi við utanríkisráðuneytið um afnot af tveimur þráðum í ljósleiðarastreng Atlantshafsbandalagsins, svonefndum NATO-streng, sem liggur hringinn íkringum Ísland og til Vestfjarða.

Ljósleiðarann vinnur jafnframt að uppbyggingu á nýjum landshring til að svala þörf á fleiri þráðum og víðfeðmara kerfi en núverandi NATO-strengur býr yfir. Það er ekki síst vegna uppbyggingar 5G-farsímakerfa en burðarnetið sem tengir saman 5G senda og internetið er ljósleiðaranet.

Tekjur vaxa á spátímabilinu um 28,7 milljarða kr. eða 49,5 prósent. Helsta skýringin eru forsendur um mikinn tekjuvöxt Carbfix og tengdra verkefna. Gert er ráð fyrir verulegum tekjuauka í tengslum við uppbyggingu Jarðhitagarðs ON við Hellisheiðarvirkjun. Tekjur af þjónustu Veitna vaxa um 7,6 milljarða króna á árunum.

Þá náði Ljósleiðarinn nýlega samkomulagi við fjarskiptafélagið Sýn um einkaviðræður sem lúta að kaupum á stofnneti Sýnar. Samið hefur verið um kaupverð að fjárhæð 3 milljarðar króna og gert er ráð fyrir 10 ára þjónustusamningi á milli fyrirtækjanna. Samkomulagið var þó gert með fyrirvara um fjármögnun.

„Hlutafjáraukningin er mjög æskileg hvort sem þessi samningur hefði komist á eða ekki, en ekki forsenda hans,“ sagði Erling við Innherja í síðasta mánuði, spurður hvort Ljósleiðarinn hafi svigrúm til að kaupa innviði Sýnar og ráðast í uppbyggingu á landshring með annars konar fjármögnun, svo sem lántöku eða skuldabréfaútgáfu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×