Skoðun

Nor­rænt sam­starf í 100 ár!

Hrannar Björn Arnarsson og Ragnheiður H Þórarinsdóttir skrifa

Norræna félagið á Íslandi fagnar í dag að eitt hundrað ár eru liðin frá stofnun félagsins. Þau voru satt best að segja ekki mörg sem sáu tilgang eða mikið vit í hugmyndinni um norrænt samstarf þegar félagið var stofnað 29. september árið 1922, enda kanski ekki von. Noregur, Finnland og Ísland voru eðlilega með hugan við eigið sjálfstæði og grunnt á því góða á milli norrænu frændþjóðanna sem hver um sig reyndi að fóta sig í nýjum heimi eftir hildarleik heimsstyrjaldarinnar fyrri.

En hugmyndinni um norrænt samstarf, samstöðu og vinskap tókst að festa rætur í hrjóstrugum jarðvegi millistríðsáranna, lifa af og vaxa í gegnum heimsstyrjöldina síðari og sprynga síðan út, sem kröftug fjöldahreyfing um öll Norðurlöndin. Enginn efast í dag um mikilvægi og ríkulegan ávöxt norræns samstarfs enda njóta fáar pólitískar hugmyndir eins víðtæks stuðning almennings og stjórnmálaflokka.

Norrænt samstarf hefur gefið af sér einhver farsælustu samfélög veraldarsögunnar, gríðarlegar efnahagslegar og samfélagslegar framfarir og Norðurlöndin hafa í sameiningu verið leiðandi afl í mannréttindum, umhverfismálum og félagslegu réttlæti í heiminum.

En það sem er mest um vert og án nokkurs vafa dýrmætasti ávöxtur hugsjónarinnar um norrænt samstarf, er sú vinátta, samhugur og samstaða sem nú ríkir milli íbúa norrænu landanna átta. Þau traustu vinabönd eru fráleitt sjálfgefin eða sjálfsögð, hvort sem horft er til blóðugrar átakasögu norrænna þjóða á fyrr á tíð, eða stríðsátaka nútímans, meðal bræða og systraþjóða Evrópu. Þetta hefur tekist með einarðri baráttu norrænu félaganna í eitt hundrað ár og því þéttriðna norræna samstarfi á flestum sviðum samfélagins, sem sú barátta hefur skilað.

Við sem viljum veg norræns samstarfs sem mestan, getum því litið afar stolt um öxl á hundrað ára afmæli Norræna félagsins á Íslandi. Við getum líka og eigum að horfa hnarreist fram á vegin, sannfærð um mikilvægi og óþrjótandi möguleika norræns samstarfs og þá dýrmætu gjöf sem vinátta norrænu þjóðanna sannarlega er. Til hamingju með daginn – meira norrænt samstarf!

Höfundar eru formaður og varaformaður Norræna félagsins.
Skoðun

Sjá meira


×