Körfubolti

Kefla­vík vann stór­sigur | Fjölnir lagði ÍR

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Birna Valgerður Benónýsdóttir er snúin aftur í lið Keflavíkur og það með látum.
Birna Valgerður Benónýsdóttir er snúin aftur í lið Keflavíkur og það með látum. Keflavík.is

Keflavík vann Breiðablik með 30 stiga mun í Subway deild kvenna í körfubolta í kvöld, lokatölur 58-88 í Smáranum. Fjölnir lagði ÍR í Breiðholti, lokatölur 50-58.

Eins ótrúlega og það hljómar þá byrjaði Breiðablik af miklum krafti í kvöld. Liðið skoraði 23 stig gegn 20 hjá gestunum. Í öðrum leikhluta fór sóknarleikur Blika út um gluggann og tókst þeim ekki að finna hann sama hvað þær leituðu. Þeim til happs þá tók það Keflavík líka dágóðan tíma að finna taktinn.

Munurinn í hálfleik var aðeins þrjú stig, staðan þá 35-38. Í síðari hálfleik stigu gestirnir úr Keflavík hins vegar á bensíngjöfina og unnu á endanum 30 stiga stórsigur, lokatölur 58-88. Keflavík hefur þar með unnið báða sína leiki á tímabilinu á meðan Breiðablik hefur tapað báðum sínum.

Birna Valgerður Benónýsdóttir var stigahæst í liði Keflavíkur með 23 stig ásamt því að taka sjö fráköst. Þar á eftir kom Daniela Wallen Morillo með 21 stig og 10 fráköst. Hjá Blikum skoraði Isabella Ósk Sigurðardóttir 17 stig ásamt því að taka 10 fráköst.

Isabella Ósk var stigahæst í liði Breiðabliks.Vísir/Diego

Fjölnir gerði góða ferð í Breiðholt og vann á endanum átta siga sigur. Segja má að annar leikhluti hafi gert út um leikinn en þar skoraði ÍR aðeins sex stig gegn 19 stigum gestanna, lokatölur leiksins 50-58. Fjölnir hefur nú unnið einn og tapað einum á meðan ÍR hefur tapað báðum sínum.

Greeta Uprus var stigahæst í liði ÍR með 21 stig ásamt því að taka 8 fráköst. Urté Slavickaite var stigahæst hjá Fjölni með 20 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×