Handbolti

Janus og Sigvaldi markahæstir en Kolstad þarf að snúa taflinu við

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Janus Daði Smárason skoraði fimm mörk fyrir Kolstad í kvöld.
Janus Daði Smárason skoraði fimm mörk fyrir Kolstad í kvöld. Kolstad

Janus Daði Smárason og Sigvaldi Björn Guðjónsson voru markahæstu menn Kolstad er liðið heimsótti spænska liðið Bidasoa Irun í fyrri leik liðanna í forkeppni Evrópudeildarinnar í handbolta. Heimamenn höfðu betur í kvöld, 30-27, og Íslendingaliðið þarf því á sigri að halda í síðari leik liðanna að viku liðinni.

Gestirnir í Kolstad byrjuðu leikinn af miklum krafti og náðu fljótt upp fjögurra marka forystu í stöðunni 3-7. Heimamenn skoruðu hins vegar næstu fjögur mörk og jöfnuðu leikinn og náðu svo sjálfir forskotinu fljótlega eftir það.

Heimamenn héldu forystunni út fyrri hálfleikinn og leiddu með þremur mörkum þegar gengið var til búningsherbergja, 16-13.

Heimamenn byrjuðu síðari hálfleikinn af sama krafti og þeir enduðu þann fyrri. Liðið náði mest sex marka forskoti í stöðunni 21-15, en þá tóku gestirnir við sér og skoruðu sex mörk í röð og staðan var því orðin jöfn á nýjan leik.

Liðin skiptust á að skora næstu mínútur, en heimamenn í Bidusoa Irun náðu aftur upp þriggja marka forskoti þegar um þrjár mínútur voru til leiksloka og unnu að lokum sterkan þriggja marka sigur, 30-27.

Eins og fyrr segir voru Janus og Sigvaldi atkvæðamestir í liði gestanna í kvöld þar sem Janus var næst markahæsti maður liðsins með fimm mörk og Sigvaldi markahæstur með sex. Síðari leikur liðanna fer fram í Noregi að viku liðinni og þar þarf Íslendingaliðið að snúa taflinu við til að vinna sér inn sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.