Tónlist

„Hafnfirskar stelpur rokka“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Klara Elias er umsjónarkona vinnustofunnar Hafnfirskar stelpur rokka! sem fer fram í október.
Klara Elias er umsjónarkona vinnustofunnar Hafnfirskar stelpur rokka! sem fer fram í október. Vísir/Bjarni

Hafnfirskar stelpur rokka! er tónlistar vinnusmiðja sem unnin er í tengslum við Appolo listahátíð í Hafnarfirði. Ungar sís og trans stelpur, trans strákar, kynsegin og intersex ungmenni á aldrinum 13-25 ára eru öll velkomin og á vinnusmiðjan sér stað yfir tvær helgar í október.

Valdefling og fjölbreytileiki

Vinnusmiðjan Hafnfirskar stelpur rokka! er gerð í samstarfi við samtökin Stelpur rokka! og inniheldur ýmis námskeið og fyrirlestra sem tengjast tónlistarsköpun á einhvern hátt og valdeflingu ungs tónlistarfólks. 

Meðal námskeiða eru ýmsar tónlistartengdar vinnusmiðjur um lagasmíðar og samstarf, námskeið í markaðssetningu fyrir tónlistarfólk sem og fyrirlestur um jafnrétti.

Ungt tónlistarfólk blómstrar

Sérstakur umsjónarmaður þessara vinnustofa er Klara Ósk Elíasdóttir, söngkona, lagahöfundur og aðstoðarverkefnastýra Hamarsins. Blaðamaður hafði samband við Klöru og fékk að heyra nánar frá.

„Ég er að skipuleggja þessar helgar af vinnusmiðjum í sameiningu við Stelpur Rokka!, Hafnarfjarðarbæ og ungmennahús bæjarins, Músik og mótor og Hamarinn. Ég hef verið verkefnastýra Skapandi sumarstarfa Hafnarfjarðarbæjar síðustu tvö ár og það er ótrúlegt hvað við eigum metnaðarfullt og frábært lista- og tónlistarfólk í bænum. 

Við sáum verkefnin sem tóku þátt síðustu tvö ár hljóta íslensku tónlistarverðlaunin, komast inn á kvikmyndahátíðir í New York og út um allan heim, fylgdumst með þeim öllum blómstra og slá í gegn.

Ég held að það sé eiginlega önnur köllun mín í lífinu, fyrir utan að búa til mína eigin tónlist, að vinna með ungu fólki og hvetja það áfram í því sem það brennur fyrir.“

Samvinna og virðing

Klara segir samvinnuna skipta miklu máli og að þátttakendur upplifi fjölbreytileikann sem tónlistin býr yfir.

„Það skiptir mig máli að þátttakendur fái góða tilfinningu fyrir ýmsum hliðum tónlistarbransans. 

Meðal annars þess að búa til tónlist og gefa hana út en fyrst og fremst að þau upplifi mikilvægi samvinnu og virðingu í tónlistarsköpun. 

Við höfum fengið til liðs við okkur frábæra fyrirlesarar og mentora sem munu leiða vinnusmiðjurnar og fyrirlestrana yfir helgina.“

Jafnrétti og femínísk hugsun

Ýmsar öflugar konur láta til sín taka í smiðjunni. Má þar nefna Hildi Kristínu sem mun kenna lagasmíðar, Anna Jóna Dungal kennir markaðssetningu, Auður Viðarsdóttir (Rauður) verður með raftónlistar og upptökusmiðju og Sema Erla sem mun halda fyrirlestur, ásamt fleirum.

Nákvæm dagskrá verður tilkynnt þegar nær dregur. Lögð verður áhersla á að kynna gildi samstarfs þar sem jafnrétti og femínísk hugsun er höfð að leiðarljósi í gegnum tónlistarsköpun.

Fyrri helgin, 15. og 16. október, er ætluð yngri þátttakendum á aldrinum 13 -16 ára. Síðari helgin, 22. og 23. október, er svo fyrir eldri þátttakendur á aldrinum 16 - 25 ára. Vinnusmiðjan á sér stað frá klukkan 10:00-16:00 á laugardegi og sunnudegi og fer fram í Músik & mótor, Dalshrauni 10. Skráning fer fram hér


Tengdar fréttir

Herdís samdi tónlistina fyrir væntanlega stórmynd í Hollywood

„Þetta er eiginlega svona röð atvika sem að leiða mann á svona stað,“ segir tónskáldið Herdís Stefánsdóttir í viðtali við Bítið í morgun. Herdís sér um tónlistina í kvikmyndinni Knock at the Cabin sem er nýjasta mynd leikstjórans M. Night Shyamalan. Hann er meðal annars þekktur fyrir stórmyndina The Sixth Sense með Bruce Willis í aðalhlutverki.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.