Í tilkynningu Sýnar til kauphallarinnar kemur fram að Fasta ehf., Tækifæri ehf. og Borgarlind ehf. hafi sett fram kröfuna um hluthafafund. Samkvæmt samþykktum Sýnar þarf félagið að boða til hluthafafundar innan fjórtán daga. Hluthafafundur skal boðaður með þriggja vikna fyrirvara.
Krafa hluthafanna þriggja er að efni hluthafafundarins verði stjórnarkjör.
Fasti ehf. er umsvifamesti hluthafinn af þeim þremur sem fara nú fram á hluthafafundinn. Félagið er í eigu hjónanna Hilmars Þórs Kristinssonar og Rannveigar Eirar Einarsdóttur. Hilmar Þór sóttist eftir sæti í stjórn Sýnar í stjórnarkjörinu sem fór fram 31. ágúst en náði ekki kjöri.
Boðað var til þess stjórnarkjörs að kröfu Gavia Invest sem fór með 16,08% hlut í Sýn. Jón Skaftason, forsvarsmaður Gavia, var eini nýi maðurinn sem náði kjöri í stjórn en fjórir af fimm stjórnarmönnum sem sóttust eftir endurkjöri náðu því.
Innherji greindi frá því að þrír af stærstu lífeyrissjóðunum í hluthafahópi Sýnar sem ráða saman meira en fjórðungseignarhluta hefðu beitt sér fyrir því að sitjandi stjórnarmenn næðu endurkjöri í stjórnarkjörinu.
Vísir er í eigu Sýnar hf.