Handbolti

Ólafur Andrés skaut Zürich á­fram í Evrópu­deildinni á ögur­stundu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ólafur Andrés byrjar vel í Sviss.
Ólafur Andrés byrjar vel í Sviss. Amiticia Zürich

Ólafur Andrés Guðmundsson reyndist hetja Zürich er liðið fór áfram í forkeppni Evrópudeildarinnar í handbolta með minnsta mun. Ólafur Andrés skoraði sigurmarkið í einvígi Zürich og Zabrze með marki úr aukakasti þegar leiktíminn var liðinn.

Hinn 32 ára gamli Ólafur Andrés samdi við Zürich í sumar eftir stutt stopp hjá Montpellier í Frakklandi. Segja má að hann hafi stimplað sig rækilega inn nú í upphafi tímabils en fyrir leik dagsins var útlitið ekki gott.

Pólska liðið Zabrze vann fyrri leik liðanna með átta marka mun og var svo gott sem komið áfram í næstu umferð forkeppni Evrópudeildarinnar. Um miðbik síðari hálfleiks í dag var staðan 19-19 og útlitið ekki gott fyrir heimamenn.

Á einhvern ótrúlegan hátt tókst þeim að skora hvert markið á fætur öðru og var staðan 31-23 er venjulegur leiktími rann sitt skeið. Heimamenn áttu hins vegar aukakast og steig Ólafur Andrés upp.

Mynd segir meira en 1000 orð og það gera myndbönd líka. Hér að neðan má sjá mark Ólafs Andrésar sem kom Zürich áfram og fagnaðarlætin í kjölfarið. Ólafur Andrés átti stórleik í dag en hann skoraði fimm mörk og lagði upp önnur fimm til viðbótar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×