Leikjavísir

The Last of Us Part I: Ekki einn besti leikur PlayStation að ástæðulausu

Samúel Karl Ólason skrifar
Joel og Ellie þurfa að ferðast þvert yfir stóran hluta Bandaríkjanna og lenda í margskonar „ævintýrum“ á leiðinni, sem eiga það flest sameiginlegt að vera hinar hræðulegustu upplifanir.
Joel og Ellie þurfa að ferðast þvert yfir stóran hluta Bandaríkjanna og lenda í margskonar „ævintýrum“ á leiðinni, sem eiga það flest sameiginlegt að vera hinar hræðulegustu upplifanir. Naughty Dog

Það er ekki að ástæðulausu að upprunaleg Last of Us sé af mörgum talinn einhver besti leikur sem gefinn hefur verið út á PlayStation. Þetta er einfaldlega klikkaður leikur og svei mér þá ef hann er ekki betri á PS5 en hann var á PS3.

Last of Us kom fyrst út á PlayStation 3 árið 2013. Hann var svo endurgerður strax næsta ár fyrir PS4 en forsvarsmenn Sony og Naughty Dog voru ekki hættir enn. Nú hefur leikurinn verið gerður upp á nýjan leik og byggður upp frá grunni fyrir PS5 og PC.

Sony hefur verið að gefa út einkaleiki á PC nokkrum árum eftir upprunalega útgáfu, eins og með Spider-Man, God of War og Days Gone, svo einhverjir séu nefndir. Það hefur reynst vel og ég vona að það haldi áfram.

Ég hef persónulega ekki spilað LOU frá því hann kom fyrst út og hef verið að skemmta mér bæði konunglega og alveg hræðilega illa, þegar leikurinn reynir hvað mest á taugarnar. Sögu- og persónusköpun Naughty Dog er svo framúrskarandi í þessum leik.

Sjá einnig: Last of Us 2 - Ótrúlega lifandi söguheimur

Hræðilegir sveppir

LOU gerist að mestu árið 2033, tveimur áratugum eftir að sveppategund byrjaði að breyta manneskjum í skrímsli sem hlupu um og drápu aðrar manneskjur og átu þær. Beisiklí uppvakninga en samt ekki. Sveppur þessi byggir á raunverulegum sveppategundum í í náttúrunni sem hafa verið að breyta skordýrum og öðrum kvikindum í uppvakninga í milljónir ára.

Það er smá óþægilegt að vita að sveppategundir eins og Ophiocordyceps unilateralis eru til í alvörunni.

Leikurinn setur spilara í spor Joel og lætur þá í fyrstu spila sig í gegnum hræðilega upplifun hans við upphaf faraldursins. Tuttugu árum síðar fær hann það verkefni að fylgja hinni fjórtán ára gömlu Ellie um langa vegalengd og koma henni í hendur vísindamanna, því hún virðist ónæm gegn sveppunum sem hafa nánast þurrkað út mannkynið.

Stirt samband þeirra tekur stakkaskiptum yfir þá mánuði sem líða í leiknum, samhliða fjölmörgum erfiðleikum sem þau Joel og Ellie þurfa að ganga í gegnum saman. Nóg um það.

Kyrkja kalla í massavís

Joel og Ellie þurfa á ferðalögum sínum að berjast bæði við vonda karla í massavís og vonda sveppa-uppvakinga. Að mestu snýst það um að laumast um, einangra þá og kyrkja eða stinga úr laumi. Maður þarf einnig oft að lauma sér framhjá sveppa-uppvakningum þegar þeir eru margir.

Ef það að laumupúkast gengur ekki eftir er fjandinn laus. Þá koma byssurnar úr hulstrum sínum maður þarf oft að hafa mikið fyrir því að lifa af.  Það stuðar mig reyndar alltaf smá hvað Joel er merkilega lélegur í því að miða byssu, þó hann eigi að hafa verið að dunda sér við það í einhver ár þegar hér er komið að sögu.

Ég legg mikla áherslu á að reyna að drepa alla sem ég get í leiknum. Hvort sem það eru karlar eða uppvakningar. Það getur þó reynst slæmt, því vopn Joel skemmast og hann á tiltölulega lítið af skotfærum. Þar koma múrsteinar sterkir inn. Þeir eru á víð og dreif um heiminn og eru einstaklega öflugir. Það er hægt að grýta þeim í fólk og uppvakninga og líka berja fólk til dauða með þeim á skotstundu.

Alltaf vera með múrstein í vasanum! Það er að segja, í leiknum. Ekki í alvörunni. Það væri skrítið.

Það hjálpar þó til við hin fjölmörgu morð sem maður fremur í Last of Us hvað vondir karlar í leiknum eru nautheimskir. Hvort sem þeir eru mennskir eða ekki, virðast þeir staurblindir og snarvitlausir. Nokkrir af uppvakningunum eru að vísu raunverulega blindir og eiga að nota hljóð til að sjá „eins og leðurblökur“ en ég get alltaf bara labbað upp að þeim og stungið þá.

Starfsmenn Naughty Dog virðast ekki hafa lagt mikið í að uppfæra gervigreind leiksins.

Lítur fáránlega vel út

LOU svipar mjög mikið til LOU2, sem kom út 2020. Það hefur ýmislegt verið gert við leikinn en eins og áður segir, þá var hann svo gott sem gerður upp á nýtt, í stað uppfærslu. Eðli málsins samkvæmt lítur leikurinn svo miklu betur út. Mér finnst hann eiginlega líta fáránlega vel út, þó sjónvarpið mitt sé reyndar alger haugur.

Þá geta spilarar notast við margskonar notendaeiginleika sem er til dæmis ætlað að hjálpa litblöndum og öðrum við að spila leikinn. Það þykir mér framúrskarandi og ég nota það reyndar ítrekað til að finna drasl í leiknum sem Joel þarf til að bæta sjálfan sig og vopn sín. Sumsé, mikilvægt drasl sem maður þarf að finna en getur reynst erfitt.

Við spilun mína hef ég ekki orðið við neina galla til að tala um og lítið sem ekkert hökkt. Mér finnst eins og það geti gerst í bardögum við vonda karla og sveppa-uppvakninga en það er ekki mikið.

Það má þó alveg velta vöngum yfir því hvað betri grafík gerir fyrir Last of Us, þar sem sagan er í fyrirrúmi.

Hér má sjá yfirferð sérfræðinganna í Digital Foundry um grafíkina í endurgerð LOU.

Samantekt-ish

Last of Us er enn klikkaður og ég er ekki viss um að nokkur muni ekki hafa gaman af því að spila þennan, leik á PS5 eða PC, þó hann geti tekið verulega á taugarnar. Þar sem saga leiksins er líklega það besta við hann, þá kemur það niður á upplifuninni að hafa spilað hann áður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×