Viðskipti innlent

Vetrar­á­ætlunin á pari við þá sem var fyrir far­aldur

Atli Ísleifsson skrifar
Bogi Nils Bogason er forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason er forstjóri Icelandair. Vísir/Egill

Vetraráætlun Icelandair er nokkurn veginn á pari af því framboði sem var veturinn 2019 til 2020, fyrir heimsfaraldur. Mest er tíðni flugferða félagsins til Kaupmannahafnar, London, New York og Boston.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá flugfélaginu, en þar segir að framboðið í vetur verði um 95 til 104 prósent af framboðinu veturinn 2019-20. Einnig segir að mikil eftirspurn sé á meðal Íslendinga til sólar- og skíðaáfangastaða eins og Tenerife, Alicante, Munchen og Salzburg.

„Í vetur verður að meðaltali flogið sautján sinnum í viku til New York, yfir tuttugu sinnum til London, ellefu sinnum til Boston og tvisvar til þrisvar á dag til Kaupmannahafnar. Með því að bjóða fleiri en eina ferð á dag er unnt að bjóða viðskiptavinum upp á fjölbreyttari brottfarartíma innan dagsins sem eykur sveigjanleika til muna.

Innanlands er flogið til þriggja áfangastaða, Akureyrar, Ísafjarðar og Egilsstaða. Félagið flýgur um tólf sinnum í viku til Ísafjarðar, 28-39 sinnum til Akureyrar og um tuttugu sinnum til Egilsstaða,“ segir í tilkynningunni.

Lyft grettistaki

Haft er eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair, að eftir að ferðatakmörkunum var aflétt hafi starfsfólk Icelandair lyft grettistaki við uppbyggingu leiðakerfisins. 

„Við kynnum metnaðarfulla flugáætlun í vetur sem er svipuð síðustu vetraráætlun fyrir heimsfaraldur. Svo öflug vetraráætlun sýnir styrk leiðakerfisins og er til marks um sterka eftirspurn á öllum okkar mörkuðum. Við gerum okkur grein fyrir mikilvægi góðra flugtenginga fyrir eyþjóð eins og Ísland og því er ánægjulegt að geta boðið upp á um 220 brottfarir á viku til 38 áfangastaða víðs vegar um heiminn yfir vetrartímann, auk öflugra tenginga innanlands,“ segir Bogi Nils.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×