Handbolti

Mikkel Hansen um veikindin sín: Sjokk fyrir mig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikkel Hansen í leik á móti Spánverjum á Evrópumeistaramótinu í ár.
Mikkel Hansen í leik á móti Spánverjum á Evrópumeistaramótinu í ár. EPA-EFE/Tibor Illyes

Danski handboltamaðurinn Mikkel Hansen var kynntur í gær sem nýr leikmaður danska félagsins Aalborg Handball en hann kemur til liðsins frá franska liðinu Paris Saint Germain.

Þetta hefur verið viðburðaríkt ár fyrir Hansen, sem endaði tíu ára feril sinn með PSG á óhuggulegan hátt. Hansen hefur ekki mikið talað um veikindin sín en gerði það í gær.

Hansen er nefnilega á batavegi eftir að hafa fengið blóðtappa í lungun í mars.

„Það er alveg á hreinu að þetta var sjokk. Það er aftur á móti minna sjokk þegar þú ert sjálfur í miðju alls því þú ert með fullt af góðu fólki til að hugsa um þig,“ sagði Mikkel Hansen við TV2.

„Þetta var samt sjokk fyrir mig og það var mjög erfitt fyrir mig að enda tíu ár hjá félaginu svona eftir að hafa verið mjög ánægður þar,“ sagði Hansen. Hér fyrir ofan má einnig sjá hann í viðtali við danska ríkissjónvarpið.

Hansen gat ekki klárað síðustu mánuði tímabilsins en hefur unnið að því að koma sér aftur til baka á handboltavöllinn.

Hann hefur líkamlega verið endurhæfingu og á blóðþynningarlyfjum. En þetta hefur auðvitað líka reynt á hann andlega.

„Þú kemst í gegnum svona með því að tala um það. Það var mjög gott að hafa fjölskylduna með þér og börn sem elska þig sama hvað gerist. Ég fæ nýjan dag með þeim á hverjum degi þar sem við getum gert eitthvað skemmtilegt. Ég eyddi miklum tíma með þeim,“ sagði Hansen.

„Ég hef líka hugsað um æfingarnar en það hefur verið mikill tími fyrir eitthvað annað. Það hefur verið gott andlega að geta komist aðeins frá handboltanum. Það eru nefnilega svo mörg ár síðan ég fékk almennilegt frí,“ sagði Hansen en óttast hann að fá annað blóðtappa?

„Þannig lifi ég ekki mínu lífi. Ef það væri þannig þá gæti ég alveg eins hætt þessu,“ sagði Hansen. Hann býst við því að byrja að spila um miðjan september. Þangað til má hann ekki spila af því að það er hætta á innvortis blæðingum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.