Innherji

Raf­mynta­sjóður Visku hefur hækkað um rúm 24 prósent frá stofnun

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Daði Kristjánsson, framkvæmdastjóri og meðstofnandi Viska Digital Assets.
Daði Kristjánsson, framkvæmdastjóri og meðstofnandi Viska Digital Assets. VÍSIR/VILHELM

Gengi Visku rafmyntasjóðs, fyrsta íslenska fagfjárfestasjóðsins sem sérhæfir sig í rafmyntum, hefur hækkað um rúmlega 24 prósent frá því að gengið var frá 500 milljóna króna fjármögnun sjóðsins í byrjun júlí. Þetta kemur fram í fréttabréfi Visku Digital Assets, rekstrarfélagi sjóðsins, sem Innherji hefur undir höndum.

Í fréttabréfinu er farið yfir þær miklu sviptingar sem hafa átt sér stað á rafmyntamörkuðum á undanförnum vikum. Víxlverkun veðkalla og fleiri áhrifaþættir leiddu til þess að verð Bitcoin fór niður í 17.600 Bandaríkjadali þann 18. júní. Lækkunin frá hæsta punkti, sem var 69 þúsund dalir um miðjan nóvember, var því rúmlega 74 prósent. Gengi rafmyntarinnar stendur nú í rúmlega 23 þúsundum dala.

„Margt er farið að benda til þess að botninum hafi verið náð ef hefðbundnir eignamarkaðir halda sínu striki. Búið er að losa um megnið af vondum skuldum (e. bad debt) í rafmyntakerfinu og gjaldþrot flestra verkefna eru komin í formleg ferli. Það skiptir þó máli að vera var um sig þar sem markaðir geta snúið hratt samhliða verri undirliggjandi þáttum í raunhagkerfinu síðar á árinu,“ segir í fréttabréfinu.

Nefnd eru nokkur dæmi sem eru sögð benda til þess að rafmyntamarkaðir hafi verið orðnir yfirseldir. Þannig höfðu stór verkefnið lækkað um allt að 90 prósent og veltan á botninum var mjög mikil.

„Niðurstaðan er því að rafmyntamarkaðurinn býður upp á mikil tækifæri fyrir þolinmótt fjármagn sem hefur trú á að markaðurinn nái fyrri styrk á endanum.“

Margt er farið að benda til þess að botninum hafi verið náð ef hefðbundnir eignamarkaðir halda sínu striki.

Stærsta staða sjóðsins er í Ethereum, næst stærstu rafmyntinni á eftir Bitcoin, en hún hækkað talsvert umfram Bitcoin síðastliðnar vikur. Stofnendur Visku benda á að Ethereum sé að fara í gegnum breytingar á svokallaðri færslustaðfestingu.

„Í stuttu máli þýðir þetta að Ethereum hættir að stóla á námuvinnslu (e. mining) við færslustaðfestingu og notar í staðinn svokallað „staking“. Þessi breyting hefur ákveðna kosti í för með sér en helst ber að nefna að nýmyndun á [Ethereum] hríðfellur við þessa breytingu eða um 90 prósent,“ segir í fréttabréfinu.

Í dag verða til 13.000 Ethereum rafmyntir á dag vegna umbunar fyrir námuvinnslu og 1.600 á dag vegna verðlauna fyrir „staking“, þ.e. virka þátttöku í færslustaðfestingu. Eftir umbreytinguna verða eingöngu staking-verðlaun en umbunin fyrir námuvinnslu fellur niður.

„Annar kostur við umbreytingu kerfisins er að orkunotkun vegna Ethereum kerfisins minnkar um 99,95 prósent þar sem orkufrek námuvinnsla dettur alfarið út. Þetta er eitthvað sem ætti að vekja athygli fjárfesta sem leggja áherslu á ESG mál.

Að baki Visku rafmyntasjóði standa 20 sjóðsfélagar. Daði Kristjánsson, framkvæmdastjóri og meðstofnandi Visku Digital Assets, sagði í viðtali við Innherja í sumar að til að byrja með myndi rekstrarfélagið leita til fjársterkra einkafjárfesta enda tæki tíma fyrir stofnanafjárfesta að samþykkja nýja eignaflokka.

„En ég er sannfærður um að íslenskir stofnanafjárfestar muni með tíð og tíma byrja að taka rafmyntir inn í eignasafnið. Það er erfitt að tímasetja það en þróunin hér heima ætti á endanum að fylgja þróuninni erlendis þar sem þátttaka stofnanafjárfesta fer vaxandi,“ sagði Daði.

Fidelity Investments, eitt stærsta eignastýringarfyrirtæki Bandaríkjanna, hefur til að mynda opnað á fjárfestingu í Bitcoin í séreignarsparnaðskerfinu 401k og vinnur nú að því að ráða yfir 1000 starfsmenn til að sinna rafmyntum.

Þá hefur Goldman Sachs, einn rótgrónasti fjárfestingabanki Bandaríkjanna, einnig tekið stærri og stærri skref í rafmyntaheiminum. Í fyrra opnaði fjárfestingabankinn sérstakt svið fyrir rafmyntaviðskipta (e. trading desk) og í apríl byrjaði bankinn að lána viðskiptavinum gegn veði í Bitcoin.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×