Innherji

Viska fer af stað með fyrsta raf­mynta­sjóðinn

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Daði Kristjánsson, framkvæmdastjóri og einn af stofnendum Visku Digital Assets
Daði Kristjánsson, framkvæmdastjóri og einn af stofnendum Visku Digital Assets VÍSIR/VILHELM

Viska Digital Assets, nýtt félag sem leggur áherslu á fjárfestingar í rafmyntum, hefur gengið frá 500 milljóna króna fjármögnun á fyrsta sjóði félagsins. Hann er jafnframt fyrsti íslenski fagfjárfestasjóðurinn sem sérhæfir sig í rafmyntum og Daði Kristjánsson, framkvæmdastjóri og meðstofnandi Visku, segir í samtali við Innherja að miklar lækkanir á mörkuðum hafi skapað tækifæri sem teymið á bak við Visku sé tilbúið að grípa.

„Við erum að fara af stað á frábærum tímapunkti með traustan og flottan hóp af sjóðfélögum sem lagt hafa til hálfan milljarð í sjóðinn í fyrstu umferð,“ segir Daði.

Daði hefur starfað á fjármálamarkaði í 15 ár, nú síðast í markaðsviðskiptateymi Fossa markaða. Á þessu tímabili fjárfesti hann persónulega ekki í innlendum verðbréfum til að komast hjá hagsmunaárekstrum við viðskiptavini og athyglin beindist því að erlendum eignamörkuðum.

„Fyrri part árs árið 2019 fór ég að skoða hvað væri í boði en þá voru vextir nánast í núlli og gegndarlaus peningaprentun hafði átt sér stað hjá erlendum seðlabönkum. Ég komst fljótlega að því að erlend skuldabréf væru óspennandi fjárfestingakostur. Á þessum tíma var lág verðbólga en maður skynjaði að þetta væri ekki sjálfbært ástand. Hlutabréfamarkaðurinn var skárri en margfaldarar fyrirtækja voru talsvert háir,“ segir Daði.

Rafmyntir komu inn í myndina sem fjárfestingakostur þegar Daði hlustaði á hlaðvarpsþátt um hlutabréfafjárfestingar þar sem Bitcoin var tekið fyrir.

„Fram að þessu hafði ég, sem hefðbundinn fjármálamaður, haldið að þetta væri bara vitleysa. En ég hafði einnig haft áhyggjur af peningaprentun og þarna var verið að lýsa kerfi sem er byggt á stafrænum skorti. Þetta er hugtak sem erfitt er að ná utan um en Bitcoin er stafræn eign í endanlegu magni,“ segir Daði.

„Í dag eru 19 milljónir Bitcoin í umferð og kerfið er hannað þannig að það verði að hámarki 21 milljón. Þetta er fyrir fram ákveðin útgáfuáætlun sem verður ekki haggað. Það er eitthvað sem þekkjum ekki í hefðbundna peningakerfinu þar sem Seðlabankar virðast geta prentað peninga að vild,“ segir Daði.

Ástandið getur sannarlega orðið verra áður en það verður betra en kjarni málsins er að langtímaþróunin er upp á við

Á þessum tímapunkti vildu nánast engir fjárfestar kenna sig við rafmyntir. Þetta var ekki viðurkenndur fjárfestingakostur og Daði segist hafa forðast að ræða rafmyntir við samstarfsmenn eða viðskiptavini. Auk þess tók sinn tíma að fræðast um rafmyntir samhliða krefjandi starfi á fjármálamarkaði.

„Það er talað um að þú þurfir a.m.k. 100 kukkustundir til að skilja Bitcoin og enn lengri tíma til að skilja þennan rafmyntaheim almennt. Þetta er svo yfirgripsmikið og byggir á meðal annars á samblöndu af hagfræði og tækni. En flestir sem leggja þessa vinnu á sig sjá að þetta er stórmerkilegt fyrirbæri,“ segir Daði. Með tímanum komst hann í kynni við aðra áhugamenn um rafmyntafjárfestingar á Íslandi sem höfðu sömu framtíðarsýn og út frá því spratt hugmyndin um Visku Digital Assets.

Landslagið hafði þá gjörbreyst. Fidelity Investments, eitt stærsta eignastýringarfyrirtæki Bandaríkjanna, hefur opnað á fjárfestingu í Bitcoin í séreignarsparnaðskerfinu 401k og vinnur nú að því að ráða yfir 1000 starfsmenn til að sinna rafmyntum.

Daði hefur starfað á fjármálamarkaði í 15 ár, meðal annars í markaðsviðskiptum Fossa markaða og sem framkvæmdastjóri H.F. Verðbréfa sem síðar var tekið yfir af Arctica Finance. VÍSIR/VILHELM

Goldman Sachs, einn rótgrónasti fjárfestingabanki Bandaríkjanna, hefur einnig tekið stærri og stærri skref í rafmyntaheiminum. Í fyrra opnaði fjárfestingabankinn sérstakt svið fyrir rafmyntaviðskipta (e. trading desk) og í apríl byrjaði bankinn að lána viðskiptavinum gegn veði í Bitcoin.

Farsælir vogunarsjóðsstjórar á borð við Paul Tudor Jones og Stanley Druckenmiller tala opinberlega um fjárfestingar sínar í Bitcoin og einstaka lífeyrissjóðir, svo sem Lífeyrissjóður slökkviliðsmanna í Houston, hafa tekin rafmyntina inn í eignasafnið sitt. Með öðrum orðum er Bitcoin að ryðja sér til rúms hjá stórum stofnanafjárfestum og fjármálafyrirtækjum.

„Við spurðum okkur hvers vegna enginn væri búinn að stofna sjóð á Íslandi á sama tíma og hundruð sjóða hafa verið stofnaðir erlendis.“

Bindurðu vonir við að innlendir stofnanafjárfestar nálgist rafmyntafjárfestingar með opnum hug?

„Til að byrja með erum við fyrst og fremst að horfa til fjársterkra einkafjárfesta enda tekur tíma fyrir stofnanafjárfesta að samþykkja nýja eignaflokka. En ég er sannfærður um að íslenskir stofnanafjárfestar muni með tíð og tíma byrja að taka rafmyntir inn í eignasafnið. Það er erfitt að tímasetja það en þróunin hér heima ætti á endanum að fylgja þróuninni erlendis þar sem þátttaka stofnanafjárfesta fer vaxandi,“ segir Daði.

Þeir sem hafa þekkingu á þessu sviði skilja hvar tækifærin eru og hvað ber að varast. Við erum með reynslumikið teymi sem hefur byggt upp mikla þekkingu

„Við viljum veita fagfjárfestum tækifæri til að fjárfesta í þessu á faglegan hátt. Þetta er ótrúlega flókinn og yfirgripsmikill heimur, það þarf að rýna í marga hluti, skoða hvaða teymi og hvers konar tækni eru á bak við rafmyntirnar og skilja kóðann á bak við þær. Þeir sem hafa þekkingu á þessu sviði skilja hvar tækifærin eru og hvað ber að varast. Við erum með reynslumikið teymi sem hefur byggt upp mikla þekkingu á þessu sviði.“

Eftir að hafa náð hápunkti í 69 þúsund dölum í nóvember hefur verð Bitcoin lækkað um rúmlega 70 prósent og stendur nú í 19 þúsund dölum. Það sama gildir um aðrar stórar rafmyntir eins og Ethereum sem hefur lækkað úr 4.800 dölum niður í tæplega 1.100 dali á sama tímabili.

Hafa þessar miklu lækkanir skaðað ímynd rafmynta sem fjárfestingakost?

„Það er mikilvægt að horfa á fjárfestingu í þessum eignaflokki yfir lengri tímabil. Það er ekki lengra síðan en árið 2020 að Bitcoin fór niður í 3.800 dali og var undir 10.000 dölum meirihluta þess árs. Eins og áður segir stöndum við í dag í um 19.000 dölum til samanburðar. Ástæðan fyrir flöktinu er að við erum með ungan eignaflokk sem er enn í svokölluðum „price discovery-fasa“. Ég er sannfærður um að flöktið muni minnka eftir því sem fleiri fjárfesta í Bitcoin og eftir því sem notkunin á bálkakeðjutækni, innviðinum á bak við Bitcoin, eykst. Ástandið getur sannarlega orðið verra áður en það verður betra en kjarni málsins er að langtímaþróunin er upp á við,“ segir Daði.

„Bitcoin er á vissan hátt eins og gull. Það kostar vinnu að framleiða það og fólk trúir á að það haldi virði til lengri tíma. Við sjáum líka gríðarlegar vísisfjárfestingar í bálkakeðjuverkefnum, samtals 33 milljarðar Bandaríkjadala á síðasta ári. Fólk og fjármagn flæðir inn í þennan geira. Og við þurfum að hugsa um þetta eins og þegar internetið var að ná fótfestu. Þar komu fram mörg fyrirtæki og verkefni sem byggðu á þeirri tæknibyltingu sem internetið var. Þeir sem skildu tæknina og hvernig heimurinn myndi breytast voru því í kjörstöðu að nýta sér tækifærin sem framundan voru. Við teljum okkur vera á nákvæmlega sama stað með bálkakeðjutæknina í dag.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×