Skoðun

Svar við tísti Bjarna

Gunnar Smári Egilsson skrifar

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsmálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins tísti í gær einni af sinni uppáhaldssetningum, um að vandinn við sósíalista sé að á endanum klára þeir annarra manna fé. Tilefnið var andmæli mín við vangaveltum Bjarna að um draga þyrfti úr styrkjum til smærri stjórnmálahreyfinga og takmarka enn frekar möguleika þeirra til að fá kjörna þingmenn. Í sjálfu sér hef ég litlu við það að bæta sem ég skrifaði í Vísi í gær en mig langar samt að leggja inn í þessa umræðuna hvernig Bjarni og Sjálfstæðisflokkurinn fer með fé annara, láta eins og það klárist aldrei.

En fyrst vil ég taka undir með Bjarna að hann hefur aldrei sagst vilja Sósíalistaflokkinn feigan. Ég hef alla vega aldrei heyrt hann segja það og hef aldrei haldið því fram að hann hafi sagt neitt slíkt. Jakob Bjarnar Grétarsson fullyrti í fyrirsögn að ég hefði sagt þetta, en ef Bjarni hefði lesið greinina sem fréttin byggði á hefði hann séð að þetta var tilbúningur Jakobs. Bjarni hefði því getað sparað sér útleggingar um að svona fullyrðingar væru einmitt lýsandi fyrir sósíalista.

En skoðum nú umgengni Bjarna um annarra manna fé, hvernig hann sölsar það undir sig og sinn flokk.

99 m.kr. til Sjálfstæðisflokksins vegna hækkunar launa þingmanna

Þegar Bjarni Benediktsson varð fjármálaráðherra vorið 2013 var þingfararkaup 630 þús. kr. á mánuði. Það er nú rúmlega 1.285 þús. kr. og nemur hækkunin 60% umfram almennt verðlag og 39% hækkun umfram almenna launaþróun. Sé tekið mið af launatengdum gjöldum og álags á þingfararkaup vegna formennsku í nefndum og þingflokkum og forsæti í þinginu, þá hefur þessi hækkun leitt til 494 m.kr. meiri kostnaðar á ári miðað við verðlag og 365 m.kr. miðað við almenna launaþróun. Sem er sanngjarnari viðmiðun. Hækkun á launum þingmanna á Bjarnatímanum er 1.461 m.kr. á kjörtímabili umfram hækkun almennra launa. Hlutur Sjálfstæðisflokksfólks af þessu nýja fé er um 99 m.kr.

255 m.kr. til Sjálfstæðisflokksins vegna fjölgunar ráðherra

Þegar Bjarni Benediktsson varð fjármálaráðherra vorið 2013 voru átta ráðherrar í ríkisstjórn. Þeir eru nú tólf. Ráðherraálagið ofan þingfararkaup hefur hækkað umfram almennan launakostnað svo þessi fjölgun ráðherra kostar um tæplega 65 m.kr. á ári eða rúmar 261 m.kr. á kjörtímabili. Við þetta bætast síðan tveir aðstoðarmenn, ritari, bíll og bílstjóri á hvern hinna nýju fjóra ráðherra. Bara launa- og rekstrarkostnaður vegna eins ráðherra-setts fer ríflega 66 m.kr. ári, 265 m.kr. á kjörtímabili.

Fjölgun ráðherra á Bjarnatímanum kostar því ekki minna en 131 m.kr. á ári eða 524 m.kr. á kjörtímabili. Sjálfstæðisflokkurinn á tvo af viðbótarráðherrunum og á því líklega um 255 m.kr. af kostnaði við fjölgun ráðherra.

981 m.kr. til aðstoðarmanna ráðherra og þingmanna Sjálfstæðisflokksins

Í dag er hver ráðherra ríkisstjórnarinnar með tvo pólitíska aðstoðarmenn hver, nema Bjarni sem er með einn aðstoðarmann. Auk þessa er ríkisstjórnin með þrjá pólitíska aðstoðarmenn. Ríkisstjórnarflokkarnir eru því samtals með 26 pólitíska aðstoðarmenn á launum hjá ríkissjóði.

Ofan á þessa 26 hafa ríkisstjórnarflokkarnir ellefu aðstoðarmenn á þinginu, framkvæmdastjóra og starfsmenn þingflokka. Á móti sextán aðstoðarmönnum formanna og þingflokka stjórnarandstöðunnar.

Ætla má að bara launakostnaðurinn við þennan her aðstoðarmanna sé um 860 m.kr. á ári, um 3.430 m.kr. á kjörtímabili. Af þeirri upphæð renna um 981 m.kr. til aðstoðarfólks ráðherra og þingflokks Sjálfstæðisflokksins.

712 m.kr. í styrk til reksturs Sjálfstæðisflokksins

Þegar Bjarni Benediktsson varð fjármálaráðherra vorið 2013 voru styrkir ríkisins til stjórnmálasamtaka 290 m.kr. eða um 369 m.kr. á núvirði. Í ár verða þessir styrkir rétt rúmar 728 m.kr. Hækkunin nemur rúmum 359 m.kr. á núvirði, ígildi 1.437 m.kr. á kjörtímabili.

Framlaginu er skipt þannig að fyrst fær hver þingflokkur 12 m.kr. en síðan er restinni skipt á milli flokka sem fengu meira en 2,5% í síðustu kosningum. Framlag Sjálfstæðisflokksins hefur hækkað frá 2013 úr 90 m.kr. á núvirði í tæplega 167 m.kr. á ári, 668 á kjörtímabili.

Á Bjarnatímanum hafa því styrkir ríkissjóðs til stjórnmálaflokka yfir kjörtímabil hækkað um 1.437 m.kr. og um 308 m.kr. til Sjálfstæðisflokksins sérstaklega.

95 m.kr. í styrk til þingflokks Sjálfstæðisflokksins

Þegar Bjarni Benediktsson varð fjármálaráðherra vorið 2013 voru framlög til þingflokka úr ríkissjóði 51,9 m.kr. eða um 66,1 m.kr. á núvirði. Í ár verða þessir styrkir 107,7 m.kr. Hækkunin nemur tæpum 42 m.kr. á núvirði, ígildi 167 m.kr. á kjörtímabili. Af þessu fé renna nú 23,6 m.kr. til Sjálfstæðisflokksins, ígildi tæplega 95 m.kr. á kjörtímabili.

Þetta er styrkir umfram greiðslu á launum og starfskostnaði þingmanna og aðstoðarmanna.

83 m.kr. í styrk til Sjálfstæðisflokksins frá 22 sveitarfélögum

Samkvæmt nýlegum lögum ber sveitarfélögum að styrkja stjórnmálaflokka sem ná manni inn í sveitarstjórn eða meira en 5% atkvæða í síðustu kosningum. Samband íslenska sveitarfélaga miðar við að sveitarfélög greiði á núvirði 205 kr. fyrir hvern íbúa árlega og deili sjóðnum síðan út til flokka miðað við atkvæðamagn þeirra. En framlögin hafa verið misjöfn, sum sveitarfélög borgað mun meira, en önnur minna.

Ef við tökum þau sveitarfélög sem hafa fleiri en tvö þúsund íbúa ætti Sjálfstæðisflokkurinn að fá samkvæmt viðmiðunum Samband íslenskra sveitarfélaga árlega tæplega 21 m.kr. frá þessum sveitarfélögum, rúmlega 83 m.kr. á kjörtímabilinu. Og þá er eftir að telja fámennari sveitarfélög, en Sjálfstæðisflokkurinn býður fram lista í mörgum smærri sveitarfélögum.

Bjarni brenndi 564 m.kr. úr sjóðum Sjálfstæðisflokksfólks

Þegar Bjarni Benediktsson varð formaður Sjálfstæðisflokksins vorið 2009 stóð flokkurinn vel fjárhagslega. Í árslok 2008 skuldaði hann 71 m.kr. á núvirði en átti 1.102 m.kr. í eigið fé, að stóru leyti bundið í Valhöll. Reikningar síðasta árs liggja ekki fyrir en í lok árs 2020 var staðan sú að flokkurinn skuldaði 506 m.kr. á núvirði og eigið féð var skroppið niður í 538 m.kr. á núvirði.

Á þessum tólf árum lækkaði eigið fé flokksins um 564 m.kr. Það eru tæpar 4 m.kr. á hverjum mánuði í samfellt tólf ár. Þrátt fyrir stjórnlausan fjáraustur úr opinberum sjóðum til flokksins og þótt ríkissjóður greiði laun æ fleiri flokksmanna, þá brennir Sjálfstæðisflokkurinn fé. Og það fé er ekki Bjarna, heldur almennra flokksfélaga í Sjálfstæðisflokknum.

Yfirgengilega hækkun á framlögum hins opinbera til stjórnmálaflokka má rekja til þessara staðreyndar. Sjálfstæðisflokkur Bjarna vantaði fé og hann sótti það til ríkis og sveitarfélaga.

Nú horfir betur til um fjárhag Sjálfstæðisflokksins. Með sölu á byggingarrétt á lóð Valhallar mun Sjálfstæðisflokkurinn geta borgað upp tapið frá formannstíð Bjarna. Flokksfélagana vegna er ekki annað hægt en að vona að þeim auðnist að finna annan formann sem fer betur með fé.

Sér ekki bjálkann í sínu auga, aðeins flísina í auga Ingu Sæland

Það er úr þessari stöðu Bjarni sem rís upp og fer að undra sig á öllum fjáraustrinum til stjórnmálaflokkana. Og hann sækir ekki dæmin í eigin túngarð, heldur undrar sig á að flokkar sem ekki séu á þingi fái styrk, þótt það sé meginreglan í öðrum Evrópulöndum og hafi verið regla hér frá því á síðustu öld. Og að litlir flokkar eigi kosningasjóði á bankabókum.

Bjarni tekur engin dæmi af fjáraustri hans sjálfs til síns eigin flokks, sem þó munar lang mest um. Og fjárausturinn keyrði úr hófi fram á tíma Bjarna, þegar hann var formaður stærsta flokksins og var í fjármálaráðuneytinu þangað sem flokkarnir sækja féð. Nú finnst honum sem þetta sé allt Sósíalistum eða Ingu Sæland að kenna.

Það er vandamál hvað stjórnmálaflokkar sækja mikið fé í opinberum sjóðum. Og mesti vandinn er auðvitað hvað þeir sækja mikið sem sækja mest. Eituráhrif þessara styrkja hefur mest áhrif þar sem mest af fénu fer, drepur niður starf almennra flokksfélaga og færir forystu flokkanna óhófleg völd og áhrif. Þetta þekkja félagar í Sjálfstæðisflokknum mæta vel, geta rifjað upp þegar þar var eitthvað flokksstarf að ráði.

Sósíalistar andmæltu auknum styrkjum

Sósíalistar bentu á þennan vanda í aðdraganda síðustu þingkosninga. Þeir gagnrýndu ástandið og lýstu yfir að þeir hygðust efla hagsmunabaráttu almennings, einkum þeirra sem standa of veikt fjárhagslega til að geta háð slíka baráttu án stuðnings. Markmið Sósíalista er að efla grasrótarstarf, ekki aðeins innan flokksins heldur um samfélagið allt, vitandi að því öflugri sem réttlætis og hagsmunabarátta almennings er því meiri hljómgrunn mun sósíalisminn fá og því sterkari verður Sósíalistaflokkurinn.

Þótt Sósíalistar séu andsnúnir fjáraustri stjórnmálaflokkanna í sjálfan sig þá hafna þeir hugmyndum Bjarna um að leiðin til að vinna gegn spillingunni sem hann hefur sjálfur blásið upp sé að skera burt styrki til Sósíalista en halda öllum styrkjum fyrir Bjarna sjálfan.

Þessi tillaga, eins og öll þessi saga, afhjúpar náttúrlega enn á ný hversu spilltur stjórnmálamaður Bjarni er.

Höfundur er félagi í Sósíalistaflokki Íslands.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.