Handbolti

Erlingur áfram í Eyjum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Erlingur Richardsson heldur kyrru fyrir í Vestmannaeyjum.
Erlingur Richardsson heldur kyrru fyrir í Vestmannaeyjum. vísir/hulda margrét

Erlingur Richardsson hefur framlengt samning sinn við handknattleiksdeild ÍBV um tvö ár. Hann hefur stýrt karlaliði félagsins frá 2018.

Magnús Stefánsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari ÍBV. Hann tekur við starfinu af Grími Hergeirssyni sem hætti eftir síðasta tímabil. Magnús lék lengi með ÍBV og var um tíma fyrirliði liðsins.

Erlingur tók í þriðja sinn við ÍBV 2018. Undir hans stjórn urðu Eyjamenn bikarmeistarar 2020 og komust í úrslit um Íslandsmeistaratitilinn á síðasta tímabili þar sem þeir lutu í lægra haldi fyrir Valsmönnum, 3-1.

Samhliða því að þjálfa ÍBV stýrði Erlingur hollenska karlalandsliðinu en hann hætti þar í sumar.

Erlingur, sem verður fimmtugur í næsta mánuði, hefur komið víða við á þjálfaraferlinum. Hann þjálfaði til að mynda Füchse Berlin í Þýskalandi og Westwien í Austurríki og gerði karlalið HK að Íslandsmeisturum ásamt Kristni Guðmundssyni 2012.

ÍBV mætir nýliðum Harðar í 1. umferð Olís-deildar karla föstudaginn 9. september.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.