Innherji

Selja sig út úr verðbréfasjóðum í stórum stíl samhliða óróa á mörkuðum

Hörður Ægisson skrifar
Úrvalsvísitala Kauphallarinnar lækkaði um rúmlega eitt prósent í júnímánuði en frá áramótum hefur vísitalan fallið um liðlega 17 prósent.
Úrvalsvísitala Kauphallarinnar lækkaði um rúmlega eitt prósent í júnímánuði en frá áramótum hefur vísitalan fallið um liðlega 17 prósent.

Innlendir verðbréfasjóðir, bæði sem fjárfesta í skuldabréfum og hlutabréfum, skruppu talsvert saman í liðnum mánuði samhliða áframhaldandi innlausnum fjárfesta sem námu samanlagt tæplega 11 milljörðum króna. Útflæði af slíkri stærðargræðu úr sjóðunum hefur ekki sést í um þrjú ár.

Mest var nettó útflæðið úr skuldabréfasjóðum, eða rúmlega 7,7 milljarðar, og hefur það ekki verið meira í einum mánuði frá því um sumarið 2019.

Þetta má lesa út úr nýbirtum tölum um eignir verðbréfasjóða frá Seðlabankanum en sala á nýjum hlutdeildarskírteinum í hlutabréfasjóðum og blönduðum sjóðum var hverfandi í júní, eða samanlagt um 1,1 milljarður, á meðan innlausnir fjárfestar voru 4,3 milljarðar. Nettó útflæðið var því samanlagt um 3,2 milljarðar í sjóðunum í síðasta mánuði.

Stöðugt útflæði hefur verið úr innlendum hlutabréfasjóðum og blönduðum sjóðum samhliða miklum óróa og verðhruni á verðbréfamörkuðum eftir innrás Rússa í Úkraínu í lok febrúar á þessu ári og vaxtahækkunum beggja vegna Atlantshafsins vegna hækkandi verðbólgu og verðbólguvæntinga.

Eignir slíkra verðbréfasjóða hafa þannig dregist saman samanlagt um liðlega 40 milljarða á fyrstu sex mánuðum ársins, bæði vegna verðlækkana á mörkuðum og eins innlausna fjárfesta, og námu um 202 milljörðum króna í lok júní.

Þetta eru mikil umskipti frá því sem var á árunum 2020 og 2021 þegar stöðugt innflæði var í hlutabréfasjóði og blandaða sjóði samtímis lækkandi vaxtastigi og auknum áhuga almennings á hlutabréfafjárfestingum. Samanlagðar fjárfestingar í slíka sjóði voru þannig um 58 milljarðar í fyrra og fjórfölduðust frá árinu 2020.

Innlendir skuldabréfasjóðir hafa horft upp á útflæði núna tvö mánuði í röð – upp á samtals um 9,5 milljarða – en áður hafði ekki verið nettó innlausnir í þess konar sjóðum frá því um haustið 2019. Aðalvísitala skuldabréfa í Kauphöllinni hefur lækkað um 1,5 prósent frá áramótum.

Hlutafjárútboð og skráning Ölgerðarinnar og Nova í liðnum mánuði, þar sem seldir voru hlutir í félögunum fyrir samanlagt tæplega 17 milljarða, er líklegt til að hafa haft einhver áhrif á flæðið í verðbréfasjóði þar sem fjárfestar hafa í sumum tilfellum beint fjármagni sínu til þátttöku í útboðum félaganna í stað þess að setja þá í slíka sjóði.

Hlutabréfamarkaðir í Evrópu og í Bandaríkjunum hafa átt erfitt uppdráttar á síðustu mánuðum vegna ótta fjárfesta um versnandi hagvaxtarhorfur samtímis því að helstu seðlabankar heimsins þurfa að hækka vexti hraðar og meira en áður var búist við til að stemma stigu við ört hækkandi verðbólgu.

Íslenski markaðurinn hefur ekki farið varhluta af þessari þróun. Úrvalsvísitala Kauphallarinnar lækkaði um rúmlega eitt prósent í júnímánuði en frá áramótum hefur vísitalan fallið um liðlega 17 prósent. Sé hins vegar litið til vísitölunnar sem tekur tillit til allra félaga á Aðalmarkaði Kauphallarinnar þá er lækkunin talsvert minni eða rúmlega 10 prósent.

Eign íslenskra heimila í hlutabréfasjóðum og blönduðum sjóðum hefur minnkað um 22 milljarða frá áramótum og nemur nú tæplega 90 milljörðum. Það er um 45 prósent af heildareignum þess konar sjóða og hefur það hlutfall haldist nokkuð óbreytt á tímabilinu.

Í byrjun þessa mánaðar var ákveðið, eins og Innherji greindi frá, að íslenski hlutabréfamarkaðurinn muni færast að fullu upp í flokk nýmarkaðsríkja (e. Secondary Emerging Markets) hjá alþjóðlega vísitölufyrirtækinu FTSE Russell í þremur jafn stórum skrefum á tímabilinu frá september næstkomandi og til marsmánaðar á næsta ári. Áður hafði legið fyrir að Ísland yrði tekið inn í nýmarkaðsvísitölurnar hjá FTSE frá og með 19. september á þessu ári.

Íslenski markaðurinn fær vigt sem nemur tæplega 0,14 prósentum af vísitölunni sem dreifist mismunandi eftir stærð félaganna í Kauphöllinni. Sérfræðingar á fjármálamarkaði telja að miðað við þá vigt megi áætla að innflæðið frá vísitölusjóðum sem fjárfesta í samræmi við samsetningu vísitölunnar geti verið samanlagt í kringum 50 til 60 milljarðar króna.

Fjórtán félög í Kauphöllinni eru tekin inn í nýmarkaðsvísitölurnar hjá FTSE en aðeins tvö þeirra – Arion banki og Marel – eru flokkuð sem meðalstór á meðan hin eru skilgreind sem lítil félög.


Tengdar fréttir

Fjárfestar selt sig út úr sjóðum fyrir um sjö milljarða á þremur mánuðum

Nær stöðugt útflæði hefur verið úr innlendum hlutabréfasjóðum og blönduðum sjóðum samtímis miklum óróa og verðhruni á verðbréfamörkuðum eftir innrás Rússa í Úkraínu í lok febrúar á þessu ári og vaxtahækkunum beggja vegna Atlantshafsins vegna hækkandi verðbólgu og verðbólguvæntinga.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.