Körfubolti

Selur hringana sem hann vann með Kobe og Shaq

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stanislav Medvedenko fær hér góð ráð frá Kobe Bryant í leik með Los Angeles Lakers.
Stanislav Medvedenko fær hér góð ráð frá Kobe Bryant í leik með Los Angeles Lakers. Getty/Jeff Gross

Fyrrum leikmaður Los Angeles Lakers í NBA-deildinni í körfubolta ætlar að safna fyrir Úkraínu með sérstökum hætti.

Körfuboltakappinn Slava Medvedenko vann á sínum tíma tvo meistaratitla með Lakers.

Hann var í 2001 og 2002 meistaraliðum Lakers með þeim Kobe Bryant og Shaquille O'Neal.

Fyrir titlana fékk hann meistarahring eins og allir aðrir sem tóku þátt í viðkomandi tímabilum.

Hinn 43 ára gamli Medvedenko er tilbúinn að fórna þessum körfuboltafjársjóði sínum fyrir samtökin sín Fly High.

Markmið samtakanna er styðja á bak við úkraínsk börn með því að bæta aðgengi þeirra að íþróttahúsum í skólum sínum.

„Við viljum endurbyggja íþróttasali því rússneski herinn hefur sprengt upp meira en hundrað skóla,“ sagði Slava Medvedenko.

„Okkar þjóð þarf á miklum peningi að halda til að laga þessa skóla. Það má búast við því að íþróttasalir skólanna verði síðastir á blaði þar. Það eru vetrarhörkur í Úkraínu og krakkar þurfa tækifæri til að leika sér innanhúss,“ sagði Medvedenko.

Uppboðið á hringunum stendur til 5. ágúst næstkomandi og er á vegum SCP Auctions. Það er búist við að báðir hringarnir munu seljast fyrir að minnsta kosti hundrað þúsund dollara eða meira en fjórtán milljónir króna.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×