Innherji

SA lastar áform um aukið flækjustig fyrir erlenda fjárfesta

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Hús atvinnulífsins í Borgartúni.
Hús atvinnulífsins í Borgartúni. visir/gunnar

Samtök atvinnulífsins, öll aðildarsamtök þeirra og Viðskiptaráð Íslands gera alvarlegar athugasemdir við áform um lagasetningu sem eru til þess fallin, að mati samtakanna, að fæla erlenda fjárfesta frá Íslandi og gera erlenda fjárfestingu að „pólitísku bitbeini“.

Í samráðsgátt stjórnvalda eru til umsagnar áform um lagasetningu sem innleiðir rýni á erlendum fjárfestingum (e. investment screening), þ.e. ítarlega greiningu stjórnvalda á því hvort af tiltekinni beinni erlendri fjárfestingu stafi hætta fyrir þjóðaröryggi eða allsherjarreglu.

Bæði SA og Viðskiptaráð benda á að einungis tvö OECD-ríki búið við meiri hömlur á erlenda fjárfestingu en það eru Nýja Sjáland og Mexíkó. Hömlurnar séu nú þegar um þrefalt meiri á Íslandi en gengur og gerist meðal OECD-ríkja.

Fari ákvæðið óbreytt í gegn er ljóst að lögfest verður töluverð hindrun sem kemur sér afar illa fyrir íslensk sprotafyrirtæki

„Þegar eru til staðar ákveðnar girðingar sem standa í vegi fyrir fjárfestingum erlendra aðila og/eða varnir fyrir því að slíkar fjárfestingar skaði þjóðhagslega mikilvæga innviði. […] Mikilvægt er að þessar takmarkanir þvert á lagabálka séu skoðaðar heildstætt og skýrt sé hvernig ákvæðum einna laga er ætlað að virka til móts við önnur,“ segir í umsögn SA.

Í áformunum má til dæmis finna drög að ákvæði um tilkynningarskyldu, en markmið ákvæðisins er að skilgreina fyrirtæki í sérlega viðkvæmum geirum og starfsemi þar sem talið er að erlent eignarhald á allt frá 10 prósenta eignarhlut kunni að vera ógn við þjóðaröryggi og allsherjarreglu.

„Flestir, ef ekki allir, þeirra þátta sem þar eru taldir upp lúta að því sem kallað er djúptækni. Algengt er að sprotafyrirtæki vinni að vörum sem byggja á þessari tækni og sprotafyrirtækjum er yfirleitt nauðugur sá kostur að sækja sér fjármagn til sérhæfðra erlendra fjárfestingasjóða sem hafa sérþekkingu á viðkomandi sviði,“ segir jafnframt í umsögn SA.

„Fari ákvæðið óbreytt í gegn er ljóst að lögfest verður töluverð hindrun sem kemur sér afar illa fyrir íslensk sprotafyrirtæki sem nú þegar búa við flókið regluverk og takmarkað aðgengi að fjármagni.“

Marka þarf málunum faglegt ferli þar sem gilda fyrirfram ákveðin hlutlæg viðmið í stað þess að hætta sé á að þau verði gerð að pólitísku bitbeini

Að mati SA mun áformuð lagasetning leiða af sér tyrfið laga- og reglugerðarumhverfi. „Þessu til stuðnings er vísað í þann erlenda samanburð sem finna má í áformunum en af honum verður vart annað ráðið en að með áformunum hyggist stjórnvöld ganga lengra en það sem þekkist erlendis. Atvinnugreinar sem heyra undir hið erlenda regluverk eru færri og afmörkunin bæði þrengri og skýrari en samkvæmt áformunum,“ segir í umsögn SA.

Hagsmunasamtökin gera jafnframt alvarlegar athugasemdir við að einum ráðherra sé falið vald til að rýna og skera úr um umsóknir um erlenda fjárfestingum. Bent er á að í Danmörku sé rýni á erlendri fjárfestingu falin stjórnvaldi og komi aðeins á borð ráðherra í þeim tilvikum þegar stjórnvaldið synjar eða setur erlendu fjárfestingunni skilyrði.

„Marka þarf málunum faglegt ferli þar sem gilda fyrirfram ákveðin hlutlæg viðmið í stað þess að hætta sé á að þau verði gerð að pólitísku bitbeini,“ segir í umsögn SA.

„Ljóst er að pólitísk afstaða til erlendrar fjárfestingar er mismunandi eftir flokkum og því má ætla að ef mikill hluti rýninnar verður háður huglægu mati opni það á að meðferð mála verði ólík eftir því hver situr við stjórnvölinn hverju sinni. Fyrirhuguð afturvirkni skapar enn meiri óvissu, þar sem kosningar og breytt pólitísk forysta getur haft áhrif á fjárfestingu sem er löngu komin til framkvæmdar,“ segir í umsögn Viðskiptaráðs.

Þá bendir Viðskiptaráð á að uppfærsla íslenska hlutabréfamarkaðsins hjá vísitölufyrirtækinu FTSE feli í sér einstakt tækifæri til þess að laða að erlenda fjárfestingu.

„Við þessi tímamót munu augu heimsbyggðarinnar beinast að Íslandi, þar sem hagkerfið verður gaumgæft með tilliti til tækifæra til fjárfestinga. Þess má vænta að erlendir vísitölusjóðir, sem þá geta fjárfest í íslenskum fyrirtækjum, muni meta fjárfestingatækifæri hérlendis. Hluti af því mati er fjárfestingaumhverfið í heild, ekki síst reglur, hömlur og hindranir.“

Hagsmunasamtökin telja einnig aðfinnsluvert engin tilraun hafi verið gerð til að framkvæma mat á efnahagslegum áhrifum lagasetningarinnar sem þau telja að séu að öllum líkindum „veruleg“.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.