Viðskipti innlent

Vonast til að aug­lýsa stöðu for­stjóra Festar innan nokkurra vikna

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Sigurlína og Guðjón, nýr varaformaður og formaður stjórnar Festar.
Sigurlína og Guðjón, nýr varaformaður og formaður stjórnar Festar. Vísir/Bjarni

Nýkjörin stjórn Festar ráðgerir að auglýsa stöðu forstjóra félagsins á næstu vikum. Mikil ólga hefur verið innan félagsins eftir að eftir að Eggerti Þór Kristóferssyni forstjóra var sagt upp störfum í júní.

Kjör í stjórn Festar fór fram í dag eftir að hluthafar kölluðu eftir hluthafafundi vegna mikillar óánægju með starfslok Eggerts Þórs Kristóferssonar forstjóra félagsins. Fundurinn var vel sóttur en um 92 prósent hluthafa voru viðstaddir í höfuðstöðvum Festar í morgun. 

Festi tilkynti það í júní að Eggert hafi sagt starfi sínu lausu en síðar var greint frá þvi að stjórnin hafi haft frumkvæði að starfslokum Eggerts. Mikil óánægja hefur ríkt um starfslok hans meðal hluthafa, sem komu saman á fundi í dag til að velja í nýja stjórn.

Tveir af fimm sitjandi stjórnarmönnum hlutu endurkjör, þau Guðjón Reynisson stjórnarformaður og Margrét Guðmundsdóttir varaformaður. Þannig misstu Ástvaldur Jóhannsson viðskiptaþróunarstjóri hjá Controlant hf., Sigrún Hjartardóttir forstöðumaður fjár- og áhættustýringar hjá Icelandair Group og Þórey G. Guðmundsdóttir stjórnarmaður sæti sitt í stjórn. 

Magnús Júlíusson aðstoðarmaður Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra, Sigurlína Ingvarsdóttir fjárfestir og Hjörleifur Pálsson stjórnarformaður Sýnar voru kjörin ný inn í stjórn í dag. Guðjón hlaut endurkjör sem stjórnarformaður en Sigurlína var kjörin varaformaður í stjórn.

Eggert Þór lætur af störfum um næstu mánaðamót og vonast ný stjórn til að geta auglýst starf forstjóra innan nokkurra vikna.

„Við erum í ferli að ráða nýjan forstjóra og það verður eitt af fyrstu verkefnum nýrrar stjórnar að gera það á sem faglegastan og bestan hátt. Nú erum við bara að stilla saman strengi og vonumst til að geta hafið það ferli sem allra fyrst. Vonandi bara innan nokkurra vikna,“ segir Sigurlína.

„Hann fór bara mjög vel. Það er komin saman ný stjórn og okkur líst afar vel á samsetningu hennar og hlökkum til að vinna saman,“ segir Guðjón.

Hann segist ekki halda að órói undanfarinna mánuða muni hafa áhrif á félagið til frambúðar. 

„Nei, ég held ekki. Ég hlakka bara til að geta farið núna að vinna aftur af fullum krafti að framgangi félagsins og veita okkar viðskiptavinum góða þjónustu.“


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×