Viðskipti

Boðar til hluta­hafa­fundar til að kjósa nýja stjórn Festar

Árni Sæberg skrifar
Hluthafafundurinn fer fram í höfuðstöðvum Festar þann 14. júlí næstkomandi.
Hluthafafundurinn fer fram í höfuðstöðvum Festar þann 14. júlí næstkomandi. Stöð 2/Egill

Stjórn Festar hefur boðað til hluthafafundar þann 23. júlí næstkomandi. Aðeins eitt mál er á dagskrá fundarins; stjórnarkjör. 

Í tilkynningu frá stjórn félagsins segir að tilgangur fundarins sé að gefa hluthöfum færi á að kjósa nýja stjórn, eftir atvikum að endurnýja umboð sitjandi stjórnar, eða kjósa nýja eða breytta stjórn, allt eftir því hvað hluthöfum sýnist og hverjir gefa kost á sér til stjórnarstarfa.

Mikill styr hefur staðið um störf stjórnar Festar síðan upp kom að stjórnin hefði haft frumkvæði að því að Eggert Þór Kristófersson segði starfi sínu sem forstjóri félagsins lausu þann 2. júní.

„Stjórn Festi hefur ákveðið að boða hluthafafund vegna þeirra sjónarmiða sem komið hafa fram í tengslum við starfslok forstjóra félagsins sem tilkynnt voru þann 2. júní sl. Stjórn víkur sér ekki undan málefnalegri gagnrýni en telur að horft til framtíðar sé ákvörðun hennar um forstjóraskipti rétt og mikilvægt skref í áframhaldandi þróun félagsins,“ segir í yfirlýsingu stjórnarinnar sem send var Kauphöllinni. 

Kauphöllin hefur starfslok Eggerts Þórs til skoðunar vegna gruns um brot á tilkynningarskyldu skráðra félaga.

Þá segir að það sé ósk stjórnar að boðaður hluthafafundur megi verða til þess að sætta ólík sjónarmið svo unnt sé að halda áfram þeirri vegferð sem fyrir höndum er og skipan nýs forstjóra er órjúfanlegur hluti af.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×