Klinkið

Vitundarvakning um hagsmuni stjórnarmanna

Ritstjórn Innherja skrifar
Tilnefningarnefndir hafa varla minnst einu orði á mikilvægi þess að stjórnarmenn eigi hlutabréf í viðkomandi fyrirtæki. 
Tilnefningarnefndir hafa varla minnst einu orði á mikilvægi þess að stjórnarmenn eigi hlutabréf í viðkomandi fyrirtæki.  Getty/Igor Kutyaev

Allt frá því að tilnefningarnefndum var komið á fót í Kauphöllinni um miðjan síðasta áratug hafa nefndirnar einblínt á að meta frambjóðendur til stjórna út frá þekkingu þeirra og reynslu. Tilnefningar hafa svo tekið mið af því að farsælast sé að hafa mikla breidd í stjórn fyrirtækis þannig að hver stjórnarmaður komi með eitthvað að borðinu. Það er gott og gilt enda hlýtur að felast eitthvað virði í því að komast hjá of mikilli einsleitni í stjórnum.

Reynslan af nefndunum hefur þó verið misjöfn. Í umfjöllun um tilnefningarnefndir frá árinu 2020 kom fram í máli stjórnarmanna, stjórnenda hjá lífeyrissjóðum og einkafjárfesta að tilnefningarnefndir hefðu lagt ofuráherslu á stjórnir væru samsettar af mismunandi sérfræðingum en minni áhersla var lögð á að stjórnarmenn byggju almennt yfir þeirri stjórnunarreynslu sem þarf til að sitja í stjórn skráðs fyrirtækis.

Ofuráhersla á sérfræðiþekkingu hefur einnig skyggt á annan mikilvægan þátt: hlutabréfaeign stjórnarmanna. Óhætt er að fullyrða að fáar sem engar skýrslur tilnefningarnefnda hafi minnst á hlutabréfaeign í viðkomandi fyrirtæki sem kost né heldur mikilvægi þess að hluti stjórnarinnar leggi eitthvað að veði. Þessi yfirsjón tilnefningarnefnda hefur verið hvimleið enda er almenn skynsemi og sjálfsögð krafa að stjórnarmenn hafi persónulega hagsmuni af því að rekstur fyrirtækisins gangi vel.

Síðustu tvær skýrslur tilnefningarnefndar Festar bera þess merki að ákveðin vitundarvakning sé að eiga sér stað. Í skýrslunni fyrir aðalfund félagsins í mars kom fram að á meðal stærstu hluthafa smásölufélagsins væri almennur vilji til þess að stjórnarmenn fjárfestu í félaginu og nefndin sagði að hlutabréfaeign tveggja sitjandi stjórnarmanna væri „styrkur“ fyrir félagið. Þetta sjónarmið kom einnig fram í skýrslunni sem var gerð fyrir hluthafafundinn sem fer fram í næstu viku.

„Lífeyrissjóðir, sem samtals eiga rúm 73 prósent hlutafjár, hafa hver um sig ætíð lagt mikla áherslu á langtímasjónarmið, árangur og góða stjórnarhætti. Fulltrúar þeirra hafa fram að þessu ekki komið með beinar tillögur um einstaka stjórnarmenn en lýst þeim vilja sínum að í stjórninni séu stjórnarmenn sem hætta eigin fé,“ segir í skýrslunni.

Óskandi er að þessi áherslubreyting á meðal lífeyrissjóða skili sér í breyttum áherslum tilnefningarnefnda og óneitanlega yrði meiri sátt um nefndirnar ef almenn skynsemi fengi meira pláss. 


Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×