Skoðun

Hornsteinn NATO á norðurslóðum

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Fullyrðingar um að mikilvægi Íslands sé ekki lengur fyrir hendi þegar kemur að varnarmálum vestrænna ríkja stenzt ekki skoðun eins og ég fjallaði um í grein í Morgunblaðinu fyrir rúmum tveimur mánuðum. Vísaði ég þar meðal annars til aukinnar áherzlu á endurbætur á aðstöðunni á Keflavíkurflugvelli og aukinnar nýtingar hennar sem og yfirlýsinga, ekki sízt bandarískra forystumanna, um landfræðilegt mikilvægi landsins. Þá hefði Ísland í vaxandi mæli verið vettvangur varnaræfinga á vegum NATO og bandamanna þess.

Mikilvægi Íslands var nú síðast áréttað af Michael Gilday, flotaforingja og æðsta embættismanni sjóhers Bandaríkjanna, í viðtali við Morgunblaðið 15. júní. Gilday var þá staddur hér á landi í þeim tilgangi að ræða við íslenzka forystumenn og kynna sér aðstæður með tilliti til varnarmála líkt og háttsettir forystumenn, bæði í stjórnmálum og sjóher Bandaríkjanna, hafa í vaxandi mæli gert á undanförnum árum.

Haft er eftir Gilday í fréttatilkynningu bandaríska sjóhersins í tilefni af heimsókn hans til Íslands að landið sé „the geostrategic linchpin“ fyrir varnir NATO á norðurslóðum sem yfirfæra mætti sem hornstein bandalagsins á svæðinu með tilliti til varnaraðgerða. Gilday sagði við Morgunblaðið að ljóst væri að landfræðilegt mikilvægi Íslands myndi ekki breytast. Viðbúið væri að viðvera bandaríska sjóhersins, bæði hér á landi og annars staðar á norðurslóðum, héldi áfram að aukast en ekki væru þó áform um varanlegar bækistöðvar.

Kafbátaumferð líkt og í kalda stríðinu

Fyrir liggur að breytt staða blasir við þegar kemur að öryggis- og varnarmálum í Evrópu, og í raun á alþjóðavísu, í kjölfar innrásar rússneska hersins í Úkraínu sem hófst í lok febrúar. Þessi breytta staða snertir meðal annars norðurslóðir en fyrir liggur til að mynda að umferð rússneskra kafbáta um Norður-Atlantshafið hefur stóraukizt á síðustu árum og er hún nú talin á pari við það sem gerðist á dögum kalda stríðsins.

„Viðvera rússneskra kafbáta í Norður-Atlantshafinu er orðin á hliðstæðum nótum við það sem gerðist í kalda stríðinu. Þó þessi viðvera sé í sjálfu sér ekki í andstöðu við alþjóðalög felur hún engu að síður í sér áskoranir sem hafa áhrif á hagsmuni Bretlands, bandamanna okkar og samstarfsaðila sem og íbúa Norðurslóða og sem við verðum að vera á verði gagnvart og reiðubúin að bregðast við,“ segir í skýrslu varnarmálaráðuneytis Bretlands, um framlag landsins til varnarmála á Norðurslóðum, sem kom út í lok marz á þessu ári.

Vaxandi viðbúnaður og viðvera Bandaríkjamanna og fleiri aðildarþjóða NATO hér á landi á undanförnum árum hefur ekki sízt snúið að aukinni umferð rússneskra kafbáta á norðurslóðum. Þannig hafa endurbætur á varnarsvæðinu meðal annars beinzt að því að aðlaga mannvirki þar að vaxandi notkun kafbátaeftirlitsflugvéla af gerðinni P-8 Poseidon. Þá hefur verið bent á að sæstrengir við Ísland kunni að vera í hættu.

Horfa þarf til allra mögulegra sviðsmynda

Komið hefur ítrekað fram í máli bandarískra forystumanna að varnarviðbúnaður Bandaríkjanna á Íslandi miði ekki að varanlegri viðveru herliðs. Hins vegar er ljóst að Bandaríkjamenn eru skuldbundnir til þess, samkvæmt varnarsamningnum við Ísland, að sjá til þess að ávallt sé til staðar nauðsynlegur búnaður í landinu til þess að tryggja varnir þess á hverjum tíma í samráði við íslenzk stjórnvöld. Fyrir vikið þarf eðli málsins samkvæmt að horfa til allra mögulegra sviðsmynda í þeim efnum. Ekki sízt í ljósi núverandi aðstæðna.

Komi upp sú staða á einhverjum tímapunkti að varanleg viðvera varnarliðs hér á landi, til lengri eða skemmri tíma, verði metin nauðsynleg til þess að tryggja varnir Íslands verða Bandaríkin að vera undir það búin í samræmi við skuldbindingar sínar. Kæmi sú staða upp gæti það eðli málsins samkvæmt hæglega gerzt með skömmum og jafnvel engum fyrirvara og svigrúmið sem yrði til þess að bregðast við verið í samræmi við það.

Fyrir vikið miðar uppbygging Bandaríkjanna á varnarsvæðinu, sem og víðar í heiminum þar sem ekki er gert ráð fyrir varanlegri viðveru, meðal annars að því að tryggja að hægt verði að bregðast sem fyrst við komi slík staða engu að síður upp. Lykilatriði í þeim efnum er að búnaður, sem nauðsynlegur væri við slíkar aðstæður og sem annars tæki langan tíma og mikla fyrirhöfn að flytja til landsins, sé þegar fyrir hendi í geymslum á staðnum. Líkja má þessu við mikilvægi þess að brunahanar séu til staðar fyrir slökkvilið komi til eldsvoða.

Hryggjarstykkið í vörnum vestrænna ríkja

Hver viðbúnaðurinn hér á landi þarf nákvæmlega að vera á hverjum tímapunkti er eðli málsins samkvæmt háð mati hverju sinni líkt og áður er komið inn á. Það mat sætir stöðugri endurskoðun eftir því hvernig staða mála með tilliti til varnarmála á norðurslóðum þróast. Vangaveltur hafa verið upp um það hvort þörf kunni að verða á varanlegu varnarliði hér á landi á nýjan leik sem er eitt af því sem fellur undir umrætt mat.

Komið hefur fram að Bandaríkjamenn hafi verið að auka herafla sinn í Evrópu verulega í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu en Evrópuríki hafa óskað eindregið eftir því. Varnarviðbúnaður NATO í aðildarríkjum bandalagsins í Austur-Evrópu verður enn fremur stóraukinn. Þá hefur verið ákveðið að rúmlega 300 þúsund manna varnarlið á vegum NATO verði til taks til þess að bregðast við með skömmum fyrirvara kalli aðstæður á það í stað 40 þúsund manna liðs áður. Viðbúið er að stærstur hluti þess verði skipaður bandarískum hermönnum.

Fyrir liggur að Bandaríkin verða áfram hryggjarstykkið í vörnum vestrænna ríkja. Bandaríkin eru enda eina ríkið í þeim hópi sem hefur í reynd burði til þess að verja bæði sig sjálf og aðra. Flest önnur vestræn ríki hafa um árabil vanrækt eigin varnir og treyst þess í stað á Bandaríkjamenn og gera enn. Þannig er ljóst að varnir Íslands verða sem fyrr bezt tryggðar með aðildinni að NATO en þó einkum varnarsamningnum við Bandaríkin.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×