Körfubolti

Setur nýtt met í liðaflakki í NBA-deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ish Smith í leik með Washington Wizards á síðasta NBA-tímabili. Nú þarf hann að flytja sig frá höfuðborginni til Denver.
Ish Smith í leik með Washington Wizards á síðasta NBA-tímabili. Nú þarf hann að flytja sig frá höfuðborginni til Denver. Getty/Patrick Smith

Ish Smith er orðinn einstakur í sögu NBA-deildarinnar í körfubolta eftir að hann var hluti af leikmannaskiptum Washington Wizards og Denver Nuggets.

Wizards skipti Smith til Denver Nuggets ásamt Kentavious Caldwell-Pope og fékk í staðinn þá Monte Morris og Will Barton.

Denver verður þrettánda félagið sem Smith spilar fyrir í NBA-deildinni og það er nýtt met.

Ish Smith var ekki valinn í nýliðavalinu á sínum tíma en byrjaði NBA-feril sinn hjá Houston Rockets árið 2010. Honum var skipt til Memphis Grizzlies á sínu fyrsta tímabili í deildinni.

Smith hefur síðan hvað eftir annað verið skipt á milli liða og hefur gengið illa að enda tímabil hjá því liði sem hann byrjar tímabilið með.

Lengsta vera hans hjá einu liði var sem leikmaður Detroit Pistons frá 2016 til 2019.

Á síðasta tímabili spilaði Smith með Charlotte Hornets þangað til í febrúar þegar honum var skipt til Wizards. Hann var með 6,3 stig, 3,8 stoðsendingar og 2,0 fráköst að meðaltali í leik tímabilið 2021-22.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


×