Formúla 1

Red Bull lætur öku­mann sem gerðist sekur um kyn­þátta­for­dóma fara

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Juri Vips hefur verið látinn fara frá Red Bull.
Juri Vips hefur verið látinn fara frá Red Bull. Mark Thompson/Getty Images

Ökuþórinn Juri Vips, sem ekur í Formúlu 2 og er varamaður hjá Red Bull í Formúlu 1, hefur verið látinn fara frá liðinu eftir að hann gerðist sekur um kynþáttafordóma.

Vips var að spila tölvuleiki í beinu streymi með liðsfélaga sínum hjá Red Bull, Liam Lawson, þegar hann lét ummælin falla. Frá þessu er greint meðal annars á heimasíðu breska ríkisútvarspins BBC, en ekki er tekið fram hvað það var sem Vips sagði. Vips lét einnig óviðeigandi ummæli í garð samkynhneigðra falla í streyminu.

Í yfirlýsingu Red Bull á samfélagsmiðlum segist liðið fordæma hatursorðræðu af hvaða tagi sem er.

„Við fordæmum hatursorðræðu af hvaða tagi sem er og gefum engan slaka þegar kemur að kynþáttafordómum innan okkar félags.“

Vips hefur sent frá sér afsökunarbeiðni á Instagram-síðu sinni þar sem hann segist sjá eftir orðum sínum.

„Svona tal er algjörlega óviðunandi og gefur ekki rétta mynd af þeim gildum sem ég vil standa fyrir,“ skrifaði Vips.

„Ég biðst innilegrar afsökunar á gjörðum mínum og þetta er ekki fordæmið sem ég vil setja. Ég mun sýna rannsókninni fullan samstarfsvilja.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.