Körfubolti

Styrmir Snær verður á­fram í Banda­ríkjunum

Atli Arason skrifar
Styrmir varð Íslandsmeistari með Þór Þorlákshöfn árið 2021.
Styrmir varð Íslandsmeistari með Þór Þorlákshöfn árið 2021. Hulda Margrét

Styrmir Snær Þrastarson hefur hafnað gylliboðum á Íslandi og mun leika áfram með Davidson háskólanum í Norður-Karólínu fylki í Bandaríkjunum á næsta tímabili.

Það er Karfan.is sem greinir frá þessu fyrr í dag. Styrmir var eftirsóttur víða hér á landi en hann var ítrekað orðaður við endurkomu í Þór Þorláksshöfn sem og lið Tindastóls á Sauðárkróki.

Styrmir er í æfingahóp íslenska landsliðsins fyrir leikinn mikilvæga gegn Hollandi þann 1. júlí næstkomandi en mun sennilega halda til Bandaríkjana seinna í sumar.

Styrmir Snær varð Íslandsmeistari með Þór Þorlákshöfn tímabilið 2020/2021 og fór í kjölfarið í Davidson háskólan þar sem hann spilaði sem nýliði á síðasta tímabili.

Styrmir lék að meðaltali 3,3 mínútur í 12 leikjum á nýliðnu tímabili í háskólaboltanum þar sem hann var með 1,1 stig að meðaltali á leik. Mest fékk Styrmir 18 mínútur, gegn Johnson & Wales Wildcats, þar sem hann skilaði 12 stigum, gaf 2 stoðsendingar og tók 3 fráköst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×