Viðskipti innlent

Með réttar­stöðu sak­bornings vegna sölunnar á Lax­fossi og Goða­fossi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Héraðssaksóknari hefur haft kæru vegna sölu tveggja skipa Eimskips til meðferðar.
Héraðssaksóknari hefur haft kæru vegna sölu tveggja skipa Eimskips til meðferðar. Vísir/Vilhelm

Hilmar Pétur Valgarðsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Eimskips, hefur verið boðaður í skýrslutöku hjá héraðssaksónara vegna sölu skipanna Laxfoss og Goðafoss árið 2019. Hann nýtur réttarstöðu sakbornings við skýrslutökuna. Félagið hafnar því að hafa brotið lög.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eimskip sem birtist í kauphöllinni í kvöld. Þar kemur einnig fram að Vilhelm Þorsteinsson, forstjóri félagsins, muni einnig gefa skýrslu vegna málsins.

Hann muni gera það sem fyrirsvarsmaður félagsins en fram kemur í tilkynningunni að hann sé ekki grunaður um refsiverða háttsemi.

Málið má rekja til sölu skipanna Laxfoss og Goðafoss. Umhverfisstofnun kærði Eimskip vegna meintra brota á lögum um meðhöndlun úrgangs. Áður hafði fréttaskýringaþátturinnn Kveikur fjallað um örlög skipanna tveggja eftir að þau voru seld. Skipin enduðu í skipaendurvinnslustöðum í Indlandi, við stærsta skipakirkjugarð heims, við Alan-ströngina.

Í þættinum hélt forsvarmaður Shipbreaking Foundation, samtaka sem berjast fyrir því að tryggt sé að skipum sé fargað á öruggan og umhverfisvænan hátt, því fram að Eimskip hafi brotið evrópska úrgangslöggjöf þegar skipin voru seld, til fyrirtækis að nafni GMS.

Eimskip hefur hafnað ásökunum um að hafa brotið lög um úrgangsmál þegar skipin voru seld. Er þetta ítrekað í tilkynningu félagsins til kauphallar í kvöld.

„Eimskip telur sig hafa fylgt í einu og öllu lögum og reglum í þessu söluferli og seldi skipin til áframhaldandi rekstrar en ekki til endurvinnslu. Félagið mun eftir sem áður leitast við að veita héraðssaksóknara allar þær upplýsingar sem um er beðið.“

Félagið baðst í kjölfar umfjöllunar Kveiks afsökunar á því að ekki hafi verið gerðar „ríkari kröfur“ til kaupanda tveggja skipa félagsins.


Tengdar fréttir

Gerðu húsleit vegna rann­sóknar á sölu tveggja skipa Eim­skips

Embætti héraðssaksóknara gerði í dag húsleit á aðalskrifstofu Eimskipafélagsins. Þetta staðfestir Ólafur Þór Hauksson héraðssaskóknari í samtali við Vísi. Embættið fékk úrskurð til húsleitar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur og óskaði eftir afmörkuðum gögnum vegna sölu skipanna Goðafoss og Laxfoss á árinu 2019 sem Umhverfisstofnun kærði til héraðssaksóknara 2020.

Lífeyrissjóðir sem eiga í Eimskip skoða stöðuna og vilja skýringar

Lífeyrissjóðir sem samtals eiga yfir þriðjungshlut í Eimskip skoða nú hvernig bregðast eigi við meintum brotum félagsins á lögum um meðhöndlun úrgangs í tengslum við sölu og niðurrif tveggja skipa félagsins. Að minnsta kosti einn þeirra hyggst óska eftir útskýringum frá stjórn Eimskips.

Eimskip staðfestir kæru en hafnar ásökunum

Umhverfisstofnun hefur kært Eimskip til embætti Héraðssaksóknara vegna meintra brota á lögum um meðhöndlun úrgangs. Félagið hafnar ásökunum um að hafa brotið lög við sölu á skipunum Goðafossi og Laxfossi.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×