Viðskipti innlent

Gerðu húsleit vegna rann­sóknar á sölu tveggja skipa Eim­skips

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Sundahöfn.
Frá Sundahöfn. Vísir/Vilhelm

Embætti héraðssaksóknara gerði í dag húsleit á aðalskrifstofu Eimskipafélagsins. Þetta staðfestir Ólafur Þór Hauksson héraðssaskóknari í samtali við Vísi. Embættið fékk úrskurð til húsleitar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur og óskaði eftir afmörkuðum gögnum vegna sölu skipanna Goðafoss og Laxfoss á árinu 2019 sem Umhverfisstofnun kærði til héraðssaksóknara 2020.

Fram kom í tilkynningu frá Eimskip til Kauphallar í dag að engir einstaklingar hefðu réttarstöðu í málinu. Félagið vinni nú að því að afla þeirra upplýsinga sem héraðssaksóknari hafi óskað eftir.

Umhverfisstofnun kærði í september á síðasta ári Eimskip til embætti Héraðssaksóknara vegna meintra brota á lögum um meðhöndlun úrgangs í tengslum við sölu á skipunum Goðafossi og Laxfossi.

Eimskip segir að líkt og fram hafi komið í tilkynningum frá félaginu 25. og 30. september 2020 þá telji félagið að farið hafi verið eftir lögum og reglum í söluferlinu á skipunum. 

„Eimskip þykir málið mjög leitt og lítur það alvarlegum augum enda leggur félagið, stjórnendur þess og starfsfólk mikla áherslu á samfélagslega ábyrgð í störfum sínum og hefur lengi hugað að umhverfismálum í sinni starfsemi.

Eimskip hefur verið upplýst um það að til rannsóknar er hvort að háttsemi félagsins geti varðað við lög númer 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og reglugerða setta á grundvelli þeirra. Félaginu er ómögulegt að leggja mat á möguleg fjárhagsleg áhrif en ákvæði laganna hafa að geyma heimildir til beitingu viðurlaga án þess að vísað sé til sérstakra fjárhæða. Eina fjárhæðin sem lögin gefa vísbendingar um er heimild Umhverfisstofnunar til að beita lögaðila stjórnvaldssektum að fjárhæð allt að 25 milljónir króna.

Eimskip mun eftir fremsta megni leitast við að veita héraðssaksóknara allar þær upplýsingar sem um er beðið,“ segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.