Golf

Eru bara að þessu fyrir „bílfarma af peningum“

Valur Páll Eiríksson skrifar
McIlroy kveðst engan áhuga hafa á því að taka þátt á LIV-mótaröðinni.
McIlroy kveðst engan áhuga hafa á því að taka þátt á LIV-mótaröðinni. Christian Petersen/Getty Images

Golfararnir sem taka þátt á LIV-mótaröðinni, sem fjármögnuð er af Sádum, eru aðeins að því fyrir bílfarma af peningum segir norður-írski kylfingurinn Rory McIlroy.

Þónokkur stór nöfn innan golfheimsins hafa ákveðið að taka frekar þátt á þessari nýtilkomnu mótaröð en á PGA-mótaröðinni, sem hefur sögulega séð verið besta mótaröð í heimi. Phil Mickelson og Dustin Johnson eru á meðal þeirra sem verða á LIV-röðinni og segir sagan að þeir þéni á bilinu 150 til 200 milljónir bandaríkjadala fyrir vikið. Sergio García, Ian Poulter og Lee Westwood eru einnig á meðal þátttakanda.

Fyrsta mótið af átta í röðinni fer fram um helgina, á Centurion-vellinum í Lundúnum. 250 milljónir dollara verða í verðlaunafé á mótunum átta, töluvert meira en býðst á PGA-mótaröðinni, sem borgar þó ekki illa.

„Við vitum öll hvers vegna allir er að spila í Lundúnum þessa helgina. Það eru bílfarmar af peningum sem greiddir eru fyrirfram. Ég skil það alveg og fyrir suma af mótspilurum mínum er það mjög heillandi.“ lét McIlroy hafa eftir sér í aðdraganda Opna kanadíska-mótsins á PGA-mótaröðinni sem fram fer um helgina.

McIlroy segist hafa engan áhuga á að taka þátt á mótaröðinni, sem hefur skapað ákveðna pólariseringu innan golfheimsins. Hann hefur hvatt þá sem valdið hafa í golfheiminum til að „koma sér fyrir í fundarherbergi og leysa málin.“

Um 25 milljónir dollara verða í boði í verðlaunafé á LIV-mótinu um helgina, þar sem sigurvegarinn fær fjórar milljónir dollara, rúmlega 520 milljónir króna, og sá sem vermir botnsætið af 48 spilurum fær 120 þúsund dollara, rúmlega 15 og hálfa milljón króna.

Greg Norman, sem var áður efstur á heimslistanum í golfi, er andlit mótaraðarinnar. Hann kveðst hafa tryggt sér frekari fjármögnun upp á 1,6 milljarð dollara frá opinberum fjárfestingasjóði Sádi-Arabíu til að fjölga mótum í 14 fyrir 2024.

Þeir sem taka þátt á mótaröðinni hafa setið undir gagnrýni fyrir að taka þátt í hvítþvætti á mannréttindabrotum í Sádi-Arabíu. Fjárfestingar sjóðs Sáda í íþróttum hefur færst í aukana síðastliðin ár. Sádar héldu keppni í Formúlu 1-kappakstrinum í fyrra og sjóðurinn keypti meirihluta í enska fótboltaliðinu Newcastle United í vetur.

Rory McIlroy freistar þess að verja titil sinn frá því í fyrra á Opna kanadíska um helgina. Keppni hefst klukkan 19:00 í kvöld og sýnt er beint frá því á Stöð 2 Golf.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.