Körfubolti

Þrí­eykið sá til þess að Boston er komið yfir í úr­slita­ein­víginu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jayson Tatum var illviðráðanlegur í nótt.
Jayson Tatum var illviðráðanlegur í nótt. Kyle Terada/Getty Images

Stjörnur Boston Celtics stigu heldur betur upp er liðið komst 2-1 yfir í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt. Alls skoruðu Jayson Tatum, Jaylen Brown og Marcus Smart 77 stig er Boston vann Golden State Warriors með sextán stiga mun, lokatölur 116-100.

Enn og aftur byrjaði Boston af miklum krafti og áttu Stephen Curry og félagar fá svör í upphafi leiks. Stríðsmennirnir réðu sérstaklega illa við Jaylen Brown en hann skoraði 17 stig í fyrsta leikhluta, staðan að honum loknum 33-22 Boston í vil.

Áfram héldu yfirburðir Celtics í öðrum leikhluta en um hann miðjan smellti Jayson Tatum niður þrist og jók muninn í 18 stig. Við það vöknuðu gestirnir og skoruðu næstu níu stig leiksins.

Munurinn var hins vegar 12 stig er liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik, 68-56. Sem betur fer fyrir Boston því í leikjunum á undan hafði Golden State alltaf spilað hvað best í þriðja leikhluta.

Það hélt áfram en munurinn var allt í einu kominn niður í tvö stig, 82-80, eftir ótrúlegan þrist frá Otto Porter Jr. þegar rúmlega fjórar mínútur voru eftir af þriðja leikhluta. Curry kom gestunum svo yfir með öðrum þrist í næstu sókn eftir að Boston mistókst að koma boltanum í körfuna.

Þarna hafði Golden State ekki verið yfir í leiknum frá því staðan var 0-2. Boston rankaði við sér og náði aftur forystunni áður en fjórði leikhluti hófst. Þar virtust gestirnir alveg sprungnir Stríðsmennirnir skoruðu aðeins 11 stig í fjórða og síðasta leikhluta leiksins.

Lokatölur í Boston 116-110 heimamönnum í vil sem eru nú komnir 2-1 yfir í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar.

Þríeykið hjá Boston fór eins og áður sagði mikinn. Þeirra stigahæstur var Jaylen Brown en hann skoraði 27 stig ásamt því að taka 9 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Jayson Tatum skoraði 26 stig, gaf 9 stoðsendingar og tók 6 fráköst. 

Marcus Smart skoraði 24 stig, tók 7 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Þá skoraði gamla brýnið Al Horford 11 stig, tók 8 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.

Hjá Warriors var Steph Curry með 31 stig, 4 fráköst og 2 stoðsendingar. Klay Thompson skoraði 25 stig, tók 3 fráköst og gaf 3 stoðsendingar. Andew Wiggins skoraði svo 18 stig, tók 7 fráköst og gaf 2 stoðsendingar.

Næsti leikur liðanna er á föstudagskvöld. Upphitun hefst á Stöð 2 Sport 2 klukkan 00.30 og leikurinn sjálfur 01.00.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.