Skoðun

Kerfis­væðing og bið­lista­blæti SÁÁ

Ómar Már Jónsson skrifar

Margt liggur fyrir í dag sem gefur tilefni til að hafa áhyggjur af stefnu SÁÁ og má rekja til breytinga sem urðu með nýjum sjúkrahúsforstjóra árið 2017 og síðan versnaði staðan verulega eftir stjórnarskipti árið 2020. Þá virðist ný stefna hafa verið hrint í framkvæmd sem ber með sér að vera fjarlæging frá grunngildum samtakana sem fólst m.a. í því að SÁÁ vann eins og bráðamóttaka.

Skyndiinnlagnir voru þjónusta sem var þannig að læknir á vakt gat tekið ákvörðun um innlögn ef viðkomandi var í bráðri hættu. Þegar það kerfi var við líði var allt að 35% allra innlagna byggt á skyndiinnlögnum. Það kerfi hefur nú verið afnumið. Nú þarf hver sjúklingur að óska eftir innlögn, hversu veikur sem hann er, hann þarf að sækja um. Umsóknin fer í síðan ferli og nefnd tekur ákvörðun um hver er samþykktur inn og hver fer á biðlista. Sá biðlistatími hefur lengst verulega.

Athyglisvert er einnig sú staðreynd að búið er að ráða almannatengil sem stýrir öllu því sem sett er fram fyrir hönd samtakanna og er því við hæfi að velta því fyrir sér hvort samtökin séu komin í vegferð um að kerfisvæða samtökin með millistjórnendakerfi eins og algengt er hjá hjá ríkisstofnunum og stórum fyrirtækjum og hvort þeir fjármunir sem fara nú í að stýra betur umræðunni út í þjóðfélagið muni bæta þjónustu samtakana við sína skjólstæðinga.

Biðlistablæti SÁÁ

Samkvæmt nýja kerfinu fara allir á sívaxandi biðlista. Biðlisti eftir meðferð á Vogi árið 2017 voru um 200-300 manns. Einu og hálfu ári síðar var biðlistinn orðinn um 600-700 manns og hefur staðan ekki batnað síðan þá, hún hefur versnað. Það er þrátt fyrir að fjöldi innlagna unga fólksins, yngri en 20 ára hefur snarminnkað undanfarin ár.

Ekki er hægt að sjá neinar ytri aðstæður sem skýra þessa lengingu á biðlista, nema breytta stjórnunarhætti og minni afkastagetu sem hefur minnkað verulega undarfarin ár.

Sú stefnubreyting sem var gerð árið 2017 og fest enn frekar í sessi árið 2020 hefur skapað alvarlega þjónustugjá milli vakthafandi lækna og skjólstæðinga.

Vissulega er það viðskiptamódel þekkt, að skapa biðlista, en það er ótækt að nota sömu taktík hjá SÁÁ. Við myndum ekki vilja sjá Landsspítalann loka bráðamóttökunni og þegar um alvarleg slys er að ræða þá verði þeir slösuðu að sækja um til að komast undir læknishendur og mögulega enda á biðlista.

Það er mikilvægt að snúa af þeirri röngu vegferð sem samtökin hafa verið sett í af núverandi stjórn. Það verður ekki gert nema með stjórnarskiptum en samkvæmt lögum samtakanna á að halda aðalfund í júní ár hvert. Þá gefst tækifæri til að rétta stefnuna af og sjá samtökin vaxa og ná sínum fyrri styrk í að þjónusta skjólstæðinga sinna.

Það er eitt stærsta hagsmunamál þeirra sem þurfa á lífsnauðsynlegri þjónustu samtakanna að halda.

Höfundur er náinn aðstandandi og stuðningsmaður um styrk og trúverðugleika SÁÁ.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×