Innherji

Salt­Pay missti stóra kúnna og mikla hlut­deild til keppi­nauta

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
SaltPay er til húsa í Katrínartúni 4.
SaltPay er til húsa í Katrínartúni 4. Íþaka

Stórir samningar um færsluhirðingu, meðal annars við smásölurisann Festi, færðust frá SaltPay til keppinautanna Valitor og Rapyd á seinni hluta síðasta árs. Sú staðreynd að markaðshlutdeild SaltPay hefur legið niður á við í samfellt þrjú ár var ein ástæða fyrir því að Samkeppniseftirlitið taldi samruna keppinautanna skaðlegan samkeppni án sérstakra skilyrða.

Samkeppniseftirlitið heimilaði í gær sölu Arion banka á færsluhirðinum Valitor til Rapyd með því skilyrði að Rapyd seldi ákveðinn hluta af færsluhirðingarsamningum sameinaðs félags til Kviku banka.

Í rannsókn Samkeppniseftirlitsins komu fram upplýsingar um að Festi hefði samið við Valitor um færsluhirðingu og myndi framkvæmd færsluhirðingar því færast frá Valitor til SaltPay í árslok 2021. Veltan sem fylgir slíkum samningi við Festi vegur afar þungt í færsluhirðingu hérlendis.

Nánari athugun leiddi í ljós að fleiri veigamiklir viðskiptavinir hefðu auk Festar fært viðskipti sín frá SaltPay til Valitors og Rapyd á seinni hluta síðasta árs en enginn veigamikill viðskiptavinur hafði fært sig yfir til SaltPay á sama tímabili.

„Það sem vekur athygli í tengslum við tilfærslur veigamikilla viðskiptavina um og eftir mitt ár 2021 er að engir stórir færsluhirðingarsamningar færðust til SaltPay á sama tíma og slíkir samningar færðust frá SaltPay til samrunaaðila,“ segir í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins.

Markaðshlutdeild Rapyd í færsluhirðingum hjá íslenskum söluaðilum hefur tvöfaldast frá árinu 2019. Á sama tíma hefur hlutdeild Valitors haldist stöðug en hlutdeild SaltPay minnkað töluvert.

„Nærtækt er með hliðsjón af þessu að draga þá ályktun að mikil samkeppni hafi ríkt milli Valitor og Rapyd, en samkeppni SaltPay hafi verið veik gagnvart báðum enda hefur fyrirtækið tapað hlutdeild til bæði Valitors og Rapyd frá árinu 2019.“

Meðal þess sem Rapyd hélt fram við rannsókn málsins var að þessar hreyfingar gætu gengið til baka á næstunni. Samkeppniseftirlitið taldi hins vegar óhjákvæmilegt að byggja mat sitt á stöðunni eins og hún var eftir tilfærslur samninganna.

„Í þessu sambandi leit Samkeppniseftirlitið meðal annars til þess að markaðshlutdeild SaltPay hefur legið niður á við samfellt í þrjú ár og að þessi þróun styrktist á árinu 2021,“ segir í ákvörðun eftirlitsins.

„Meginatriðið er að bollaleggingar um mögulegan viðsnúning og markaðssókn SaltPay […] í framtíðinni geta ekki legið til grundvallar mati á því hvort samruninn sé samþýðanlegur samkeppnislögum.“

Samkvæmt ársreikningi SaltPay fyrir síðasta ár námu hreinar rekstrartekjur 1,9 milljörðum króna og lækkuðu þær um ríflega 17 prósent milli ára. Félagið var rekið með nærri 1,4 milljarða króna tapi samanborið við 1,2 milljarða króna tap á árinu 2020.

Ég á von á að [reksturinn] nái jafnvægi á þessu ári og að félagið skili hagnaði strax á næsta ári

Jónína Gunnarsdóttir, forstjóri SaltPay, segir í svari til Innherja að það sé rétt að nokkur stærri fyrirtæki, sem höfðu verið lengi í viðskiptum við SaltPay og áður Borgun, færðu sig yfir til annarra færsluhirða á síðasta ári. 

„Við gerðum fjölmargar breytingar í fyrra sem sneru að því að jafna greiðslukjör viðskiptavina og einfalda vöruframboðið okkar. Markmiðið með breytingunum er að gera okkur kleift að þjónusta kjarnahóp SaltPay, sem eru lítil og meðalstór fyrirtæki, enn betur og bjóða upp á nýjar lausnir sem hjálpa þeim í sínum rekstri," segir Jónína. 

Áhersla SaltPay er því ekki lengur á að vera með mestu veltuna til skemmri tíma litið, að sögn Jónínu, heldur að vera með marga góða viðskiptavini. 

„Þessi stefna er farin að skila sér en viðskiptavinum SaltPay á Íslandi hefur fjölgað umtalsvert það sem af er þessu ári. Tapið sem var á rekstri félagsins í fyrra skýrist að mestu leyti af Covid en ég á von á að hann nái jafnvægi á þessu ári og að félagið skili hagnaði strax á næsta ári.“

Samkeppniseftirlitið bendir á að starfsemi færsluhirðanna þriggja hafi gengið illa undanfarið ár en þau skiluðu öll tapi á árunum 2019 og 2020. Afkoman versnaði milli þessara tveggja ára hjá SaltPay og Rapyd en fór batnandi hjá Valitor og hefur sá bati haldið áfram. Samkvæmt nýútgefnum ársreikningi Valitors fyrir árið 2021 skilaði Valitor 333 milljóna króna hagnaði eftir skatta á árinu 2021.

Kvika banki greiðir hverfandi litla upphæð fyrir safn viðskiptasamninga, sem saman mynda um 25 prósenta hlutdeild á markaðinum fyrir færsluhirðingu hér á landi. Í tilkynningu Kviku til Kauphallarinnar í gær kom fram að kaupin hefðu „hverfandi“ áhrif á eiginfjárgrunn bankans. Orðalagið þýddi í reynd – og það staðfestu viðmælendur Innherja á fjármálamarkaði – að kaupverðið væri hverfandi lítið.

Niðurstaða rannsóknar Samkeppniseftirlitsins leiddi í ljós að ef kaup Rapyd á Valitor hefðu gengið í gegn óbreytt og án íhlutunar hefði markaðshlutdeild sameinaðs fyrirtækis orðið á bilinu 70-75 prósent fyrir færsluhirðingu hjá íslenskum söluaðilum.

En með sölunni á færsluhirðingarsamningum til Kviku fer markaðshlutdeild sameinaðs fyrirtækis „marktækt niður fyrir 50 prósent“ eins og það var orðað í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins. Fyrir hverfandi lítið kaupverð fær Kvika því a.m.k. um 20 til 25 prósenta hlutdeild á markaðinum.

Í ljósi þess að Kvika veitir nú þegar greiðslutengda þjónustu undir vörumerkjum Netgíró og Aur telur Samkeppniseftirlitið að kaupin geri bankanum kleift að „hasla sér völl á færsluhirðingarmarkaði og keppa um viðskipta við söluaðila.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×