Innherji

SKE heimilar kaup Rapyd á Valitor

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Kaupin hafa verið til meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu frá sumrinu 2021.
Kaupin hafa verið til meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu frá sumrinu 2021. Vísir/Vilhelm

Samkeppniseftirlitið hefur heimilað sölu Arion banka á færsluhirðinum Valitor til Rapyd með því skilyrði að Rapyd selji ákveðinn hluta af færsluhirðingarsamningum sameinaðs félags til Kviku banka. Arion hefur jafnframt óskað eftir heimild til að hrinda 10 milljarða króna endurkaupaáætlun í framkvæmd.

Fyrirvarar samkomulagsins teljast þó enn sem komið er ekki að fullu uppfylltir þar sem formlegt samþykki Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands á kaupunum liggur ekki fyrir. Stefnt er að því að ganga frá viðskiptunum á næstunni.

Væntur hagnaður Arion banka vegna sölunnar, að frádregnum sölukostnaði, er áætlaður um 5 milljarðar króna, miðað við gengi dagsins. Samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar hefur bankinn óskað eftir heimild frá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands til að hrinda í framkvæmd 10 milljarða króna endurkaupaáætlun eftir að viðskiptin hafa gengið í gegn.

Niðurstaða rannsóknar Samkeppniseftirlitsins var sú að ef hin áformuðu kaup Rapyd á Valitor hefðu gengið fram óbreytt og án íhlutunar hefði markaðshlutdeild sameinaðs fyrirtækis orðið á bilinu 70-75 prósent fyrir færsluhirðingu hjá íslenskum söluaðilum. Samruninn hefði því leitt til afgerandi markaðsráðandi stöðu sameinaðs félags eða eftir atvikum styrkingar á mögulegri markaðsráðandi stöðu Valitors.

Við rekstur málsins brugðust samrunaaðilar við frummati Samkeppniseftirlitsins með því að óska eftir viðræðum um sátt í málinu og leggja til aðgerðir til þess að eyða skaðlegum áhrifum samrunans á samkeppni. Leiddu viðræðurnar til þess að Rapyd gerði sátt við Samkeppniseftirlitið um tilteknar aðgerðir.

Í aðgerðunum felst meðal annars að Rapyd skuldbindur sig til þess að selja frá sér fjölbreytt safn færsluhirðingarsamninga til hæfs kaupanda. Á meðan meðferð málsins stóð náðust samningar við Kviku banka en með sölunni fer markaðshlutdeild hins sameinaða fyrirtækis jafnframt marktækt niður fyrir 50 prósent.

Samkvæmt samningnum er fyrirhugað að dótturfélag Kviku verði svokallaður „Payment Facilitator“ og á næstu mánuðum taka yfir samninga við viðkomandi söluaðila í samræmi við ákvæði samningsins, sem eftirleiðis verða þá viðskiptavinir bankans eða dótturfélags hans.

Áhrif samningsins á eiginfjárgrunn Kviku eru hverfandi og gert er ráð fyrir að áhrif á afkomu ársins 2022 verði lítil. Þá er gert ráð fyrir að samningurinn hafi 200-300 milljóna króna jákvæð áhrif á afkomu bankans fyrir skatta frá og með árinu 2023.

Að mati Samkeppniseftirlitsins skapar salan aðstæður fyrir, Kviku, sem þegar veitir greiðslutengda þjónustu undir vörumerkjum Netgíró og Aur, til að hasla sér völl á færsluhirðingarmarkaði og keppa um viðskipti við söluaðila.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.