Innherji

Kvika fær fjórðung af markaðinum fyrir hverfandi litla greiðslu

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Marinó Örn Tryggvason, forstjóra Kviku banka
Marinó Örn Tryggvason, forstjóra Kviku banka VÍSIR/VILHELM

Kvika banki greiðir hverfandi litla upphæð fyrir safn viðskiptasamninga, sem saman mynda um 25 prósenta hlutdeild á markaðinum fyrir færsluhirðingu hér á landi. Þetta má lesa úr tilkynningum Kviku og Samkeppniseftirlitsins sem voru sendar út í gær í tengslum við samþykki eftirlitsins á kaupum Rapyd á Valitor, dótturfélagi Arion banka.

Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka, segist ekki geta tjáð sig um kaupverðið en hann telur að þegar upp er staðið geti kaupin reynst vera einn besti samningur sem bankinn hefur gert.

„Tækifærið til að þróa fjármálamarkaðinn verður miklu stærra með þetta spil í hendinni,“ segir Marinó Örn, í samtali við Innherja.

Í gær var greint frá því að Kvika og Rapyd hefðu náð samkomulagi um að Kvika taki yfir hluta af færsluhirðingarsamningum Valitor við söluaðila. Samkomulagið er forsenda fyrir samþykki eftirlitsstofnunarinnar á kaupum Rapyd á Valitor sem hefðu annars leitt til „afgerandi markaðsráðandi stöðu“ sameinaðs félags að mati stofnunarinnar.

Samkvæmt samkomulaginu er fyrirhugað að dótturfélag bankans verði milliliður fyrir kaupmenn og færsluhirða (e. payment facilitator) og taki á næstu mánuðum yfir samningana. Í kjölfarið mun Valitor veita tiltekna bakendaþjónustu og annast færsluhirðingarvinnslu vegna þeirrar færsluhirðingar sem dótturfélag Kviku veitir söluaðilum.

„Þetta er stór markaður og hann fer bara stækkandi í takt við aukna veltu í hagkerfinu,“ segir Marinó. „Við erum á þessum markaði nú þegar með Netgíró, en hlutdeild okkar mun stækka um heilan helling. Kaupin gera okkur kleift að bjóða upp á víðtækari þjónustu fyrir söluaðila. Við gætum til að mynda boðið upp á lausnir eins og lánafyrirgreiðslur eða tryggingar fyrir viðskiptavini í samstarfi við söluaðila, fjármögnun fyrir söluaðila, og svo framvegis.“

Í tilkynningu Kviku til Kauphallarinnar í gær kom fram að kaupin hefðu „hverfandi“ áhrif á eiginfjárgrunn bankans. Orðalagið þýðir í reynd – og það staðfesta viðmælendur Innherja á fjármálamarkaði – að kaupverðið sé hverfandi lítið. Hefði kaupverðið verið milljarður króna, svo dæmi sé tekið, myndi eiginfjárgrunnurinn lækkað sem því nemur.

Við erum á þessum markaði nú þegar með Netgíró, en hlutdeild okkar mun stækka um heilan helling.

Niðurstaða rannsóknar Samkeppniseftirlitsins leiddi í ljós að ef kaup Rapyd á Valitor hefðu gengið í gegn óbreytt og án íhlutunar hefði markaðshlutdeild sameinaðs fyrirtækis orðið á bilinu 70-75 prósent fyrir færsluhirðingu hjá íslenskum söluaðilum.

En með sölunni á færsluhirðingarsamningum til Kviku fer markaðshlutdeild sameinaðs fyrirtækis „marktækt niður fyrir 50 prósent“ eins og það var orðað í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins. Fyrir hverfandi lítið kaupverð fær Kvika því a.m.k. um 20 til 25 prósenta hlutdeild á markaðinum.

Fram kom í Kauphallartilkynningunni að áhrifin á afkomu ársins 2022 yrðu lítil en gert er ráð fyrir að kaupin hafi 200-300 milljóna króna jákvæð áhrif á afkomu bankans frá og með árinu 2023. „Og þá erum við ekki að taka tillit til áframhaldandi þróunar á viðskiptalíkaninu sem er meginástæðan fyrir kaupunum. Ég held að þetta geti orðið einn besti samningur sem við höfum gert,“ segir Marinó.

Valitor mun tímabundið veita Kviku þjónustu, einkum á sviði tæknilegrar framkvæmdar og uppgjörs gagnvart alþjóðlegu kortafélögunum. Jafnframt felst í þessari þjónustu að Kvika getur starfað tímabundið á grundvelli aðalleyfa samrunaaðila frá alþjóðlegu kortakerfunum.

Ég held að þetta geti orðið einn besti samningur sem við höfum gert

Til þess að tryggja að þessi áform skili árangri hefur Kvika einnig gert sátt við Samkeppniseftirlitið þar sem félagið skuldbindur sig meðal annars til þess að færa þjónustukaup sín frá samrunaaðilunum til annars þjónustuveitanda sem ekki er umsvifamikill færsluhirðir á íslenska markaðnum.

Þá er Rapyd óheimilt að kaupa aftur hina seldu samninga í 10 ár og óheimilt að keppa um viðskipti við söluaðila í hinum seldu samningum í tiltekinn tíma eftir að tímabundnum þjónustukaupum Kviku af þeim lýkur.

Í ljósi þess að Kvika veitir nú þegar greiðslutengda þjónustu undir vörumerkjum Netgíró og Aur telur Samkeppniseftirlitið að kaupin geri bankanum kleift að „hasla sér völl á færsluhirðingarmarkaði og keppa um viðskipta við söluaðila.“

Kvika keypti Aur og Netgíró á síðasta ári fyrir um 1.400 milljónir króna. Hugmyndin á bak við yfirtökurnar, eins og fram kom í viðtali við Marinó síðastliðinn nóvember, var tvíþætt.

Annars vegar voru félögin endurfjármögnuð sem gerði Kviku kleift að ná fram sparnaði upp á nokkur hundruð milljónir króna. Hins vegar sá Kvika mikil verðmæti í því að fjöldi virkra viðskiptavina hjá fjártæknifélögunum eru fleiri en 100 þúsund.

„Það er gríðarlega verðmætur viðskiptagrunnur sem við getum byggt ofan á. Kvika er fjárhagslega sterkur banki en með litla markaðshlutdeild í bankaþjónustu. Verkefnið framundan er að þessir viðskiptavinir kaupi fleiri vörur og þjónustu sem samstæðan býður upp á,“ sagði Marinó í fyrrgreindu viðtali.

Hagnaður Kviku banka á fyrstu þremur mánuðum ársins nam 1.740 milljónum króna, sem var í samræmi við áætlanir á fjórðungnum, og arðsemi af efnislegu eigin fé félagsins fyrir skatta var 16,1 prósent.

Þá var fyrr í maí tilkynnt um að alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið Moody´s hefði í fyrsta sinn úthlutað Kviku banka Baa2 langtíma- og Prime-2 skammtíma- lánshæfiseinkunn í fjárfestingaflokki fyrir móttöku innstæða og útgáfu skuldabréfa.

Lánshæfiseinkunn Kviku, sem er sú fyrsta sem bankinn fær frá einu af alþjóðlegu lánshæfismatsfyrirtækjunum, er sambærileg þeim sem stóru viðskiptabankarnir þrír eru með hjá hinum matsfyrirtækjunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×