Handbolti

Heldur að Agnar Smári verði X-faktorinn gegn ÍBV

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Agnar Smári Jónsson hefur oft verið bestur þegar mest er undir.
Agnar Smári Jónsson hefur oft verið bestur þegar mest er undir. vísir/Hulda Margrét

Róbert Aron Hostert telur að Agnar Smári Jónsson geti reynst Valsmönnum dýrmætur í úrslitaeinvíginu gegn Eyjamönnum um Íslandsmeistaratitilinn.

Agnar Smári hefur lítið komið við sögu í úrslitakeppninni til þessa enda Arnór Snær Óskarsson spilað stórvel í stöðu hægri skyttu. Róbert Aron er samt handviss um að Agnar Smári eigi eftir að reynast Val vel í úrslitaeinvíginu.

„Ég held að hann verði X-faktorinn í þessu og ég er búinn að segja það við hann,“ sagði Róbert Aron í viðtali við Stefán Árna Pálsson sem var tekið í Fjósinu á Hlíðarenda.

„Hann er alltaf klár og við erum allir klárir. Við erum líka þannig lið, mjög samstilltir. Hann gæti alveg verið gæinn sem klárar þetta fyrir okkur.“

Klippa: Seinni bylgjan - viðtal við Róbert Aron

Í leikmannahópi Vals eru nokkrir ungir og afar efnilegir strákar, hin svokallaða hvolpasveit. Róbert Aron hefur engar áhyggjur af öðru en að hún standi sig á stærsta sviðinu.

„Jájá, þeir eru búnir að sýna það. Við höfum notið velgengni upp á síðkastið og þeir hafa verið í þeirri stöðu að spila úrslitaleiki og gera vel. Arnór var maður helgarinnar í bikarúrslitunum þannig að þeir ættu að vera komnir með einhverja reynslu í stórum leikjum þar sem pressan er mikil. Ég sé þá halda sama dampi,“ sagði Róbert Aron.

Fyrsti leikur Vals og ÍBV í úrslitaeinvíginu hefst klukkan 19:30 í kvöld. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og upphitun Seinni bylgjunnar hefst 18:50.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.