Körfubolti

Finnur: Mjög erfitt að segja þetta fyrir framan þig en Pavel er sá besti

Sindri Sverrisson skrifar
Pavel Ermolinski smellir kossi á verðlaunagripinn sem hann þekkir svo vel.
Pavel Ermolinski smellir kossi á verðlaunagripinn sem hann þekkir svo vel. vísir/bára

Þjálfarinn Finnur Freyr Stefánsson lýsti Pavel Ermolinski sem besta leikmanni sögunnar í íslensku deildakeppninni í körfubolta, eftir að þeir urðu Íslandsmeistarar með Val í gær.

Finnur stýrði KR til fimm Íslandsmeistaratitla í röð á árunum 2014-2018 og sá svo til þess að 39 ára bið Vals eftir Íslandsmeistaratitli lyki í gær með sigrinum á Tindastóli í oddaleik.

Alla titlana hefur Finnur unnið sem þjálfari Pavels sem í gær varð Íslandsmeistari í áttunda sinn, og í fyrsta sinn með öðru liði en KR.

„Pavel Ermolinski á rosalega stóran þátt í þessu. Jú, jú, ég sem þjálfari er flottur en ég er með klárasta aðstoðarþjálfara landsins,“ sagði Finnur í Subway Körfuboltakvöldi á Hlíðarenda í gærkvöld.

Klippa: Finnur dásamaði Pavel

„Hvernig hann stígur inn, les leikinn, varnarleikurinn er mikið til frá honum, orkan sem kemur og þessi „presence“ sem hann er með… Þetta var erfið sería fyrir hann, við vitum að honum líður ekki endilega best með það í dag að fara á hringinn, en þessi vilji og þróttur í gæjanum…“ sagði Finnur og beindi svo orðum sínum að tífalda Íslandsmeistaranum Teiti Örlygssyni sem sat við borðið:

„Það er mjög erfitt að segja þetta fyrir framan þig en ég ætla að setja Pavel sem besta leikmann deildakeppninnar hér heima. Bara út frá hans „dominance“ á mörgum sviðum. Hvernig hann getur haft áhrif á leikinn. Þetta var Pavels sagan hérna. Það þarf bara að koma fram aftur og aftur hversu þakklátur gæi eins og ég er fyrir að hafa fengið að vera í kringum hann,“ sagði Finnur.

Pavel Ermolinski vann sjö Íslandsmeistaratitla með KR en skipti yfir til Vals árið 2019 og á stóran þátt í ógnarhröðum uppgangi liðsins.vísir/bára

Subway-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Subway-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×