Körfubolti

Finnur Freyr tók fram úr Sigga Ingimundar í gærkvöldi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Finnur Freyr Stefánsson gerir sér hér grein fyrir því að hann sé búinn að gera Valsmenn að Íslandsmeisturum, fyrsti þjálfarinn í 39 ár sem gerir það. Finnur sjálfur verður ekki 39 ára fyrr en í október.
Finnur Freyr Stefánsson gerir sér hér grein fyrir því að hann sé búinn að gera Valsmenn að Íslandsmeisturum, fyrsti þjálfarinn í 39 ár sem gerir það. Finnur sjálfur verður ekki 39 ára fyrr en í október. Vísir/Bára Dröfn

Finnur Freyr Stefánsson varð í gærkvöldi fyrsti þjálfarinn í sögunni sem nær að vinna sex Íslandsmeistaratitla í úrslitakeppni karlakörfuboltans.

Finnur vann þarna sinn fyrsta titil sem þjálfari Vals en hann hafði áður gert KR-inga fimm sinnum að meisturum.

Sigurður Ingimundarson var búinn að vera sigursælasti þjálfari úrslitakeppninnar í sautján ár eða síðan hann gerði Keflavík að Íslandsmeisturum í fjórða sinn vorið 2005.

Sigurður hafði tveimur árum fyrr (2003) jafnað met Gunnars Þorvarðarsonar, Jóns Kr. Gíslasonar, Vals Ingimundarsonar og Friðriks Inga Rúnarssonar sem allir höfðu unnið þrjá Íslandsmeistaratitla sem þjálfari í úrslitakeppni.

Sigurður bætti síðan eigið met með því að gera Keflavík að meisturum árið 2008. Hans fimmti Íslandsmeistaratitill á ellefu árum

Finnur jafnaði met Sigurðar með því gera KR að meisturum fimmta árið í röð vorið 2018. Hann bætti það síðan í gærkvöldi. Finnur hefur þar með unnið titilinn á sex af sjö árum sínum sem þjálfari í úrvalsdeild karla.

Hann hefur nú stýrt liði í sjö úrslitakeppnnum, hefur unnið átján einvígi af nítján og sigurhlutfallið stendur nú í 76 prósent, 56 sigrar og aðeins 18 töp í 74 leikjum.

  • Flestir Íslandsmeistarar sem þjálfari í úrvalsdeild karla í körfubolta:
  • 6 - Finnur Freyr Stefánsson
  • 5 - Sigurður Ingimundarson
  • 3 - Gunnar Þorvarðarson
  • 3 - Jón Kr. Gíslason
  • 3 - Valur Ingimundarson
  • 3 - Friðrik Ingi Rúnarsson
  • 3 - Ingi Þór SteinþórssonFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.