Körfubolti

Butler með einstaka tölfræðilínu í sigri Miami liðsins í Boston

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Boston Celtics mennirnir Robert Williams III (númer 44) og Jayson Tatum (0) reyna að loka á Jimmy Butler sem virðist vera búinn að finna lausan mann.
Boston Celtics mennirnir Robert Williams III (númer 44) og Jayson Tatum (0) reyna að loka á Jimmy Butler sem virðist vera búinn að finna lausan mann. AP/Lynne Sladky

Jimmy Butler og félagar í Miami Heat eru komnir 1-0 yfir í úrslitum Austurdeildarinnar eftir útisigur á Boston Celtics í úrslitakeppni NBA deildarinnar í körfubolta í nótt.

Butler átti magnaðan leik og bauð í raun upp á einstaka tölfræðilínu í þessum leik sem Miami Heat vann 118-107.

Butler var með 41 stig, 9 fráköst, 5 stoðsendingar, 4 stolna bolta og 3 varin skot.  Eins og oft áður í úrslitakeppninni þá skipti þessi magnaði keppnismaður yfir í túrbó gírinn þegar mikilvægi leiksins var meira.

Síðan NBA fór að skrá alla þessa tölfræðiþætti hafði enginn náð að lágmarki þessu öllu saman í sama leik í úrslitakeppni og í raun höfðu aðeins fimm aðrir leikmenn náð þessu í deildarleik eða þeir Anthony Davis, Hakeem Olajuwon, David Robinson, Kareem Abdul-Jabbar og James Harden (tvisvar). LeBron James komst næst því, vantaði bara eitt frákast í stórleik sínum árið 2016.

„Jimmy Butler er úrvals keppnismaður. Það eru fullt af mönnum í þessari deild að spila körfubolta en hann er að keppa til þess að vinna. Það er allt annað og enginn í deildinni gerir það betur en hann,“ sagði Erik Spoelstra, þjálfari Miami Heat.

Butler skoraði 27 af 41 stigi sínu í seinni hálfleik en það var frábær þriðji leikhluti sem lagði grunninn að sigrinum. Heat liðið var átta stigum undir í hálfleik en vann þriðja leikhlutann 39-14.

„Við unnum hina þrjá leikhlutana en auðvitað stingur þessi leikhluti í augun. Við náðum nokkurn vegina að koma okkur aftur inn í leikinn í fjórða leikhluta og fórum að spila vel á ný, náðum að svara krafti þeirra. En að tapa leikhluta 39-14 og hitta þá aðeins úr 2 af 15 skotum er of erfitt að yfirvinna,“ sagði Ime Udoka, þjálfari Boston.

Tyler Herro kom með 18 stig inn af bekknum og Gabe Vincent bætti við 17 stigum fyrir Miami. Jayson Tatum skoraði 29 stig fyrir Boston og Jaylen Brown var með 24 stig en liðið lék án byrjunarliðsmannanna Marcus Smart (meiddur á fætir) and Al Horford (Covid-19).

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×