Innherji

VEX búið að fjárfesta fyrir fimm milljarða

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Trausti Jónsson og Benedikt Ólafsson, stofnendur VEX.
Trausti Jónsson og Benedikt Ólafsson, stofnendur VEX.

Framtakssjóðastýringin VEX hefur fjárfest fyrir 5 milljarða króna frá því að fyrsta framtakssjóði félagsins var komið á fót sumarið 2021.

Sjóðurinn VEX, sem er 10 milljarðar króna að stærð, I hefur hingað til fjárfest í þremur fyrirtækjum; Opnum Kerfum, AGR Dynamics og Annata, sem öll starfa í hugbúnaðar- og tæknigeiranum.

Í ársreikningi sjóðsins fyrir síðasta ár kemur fram að hann hafi keypt 41 prósenta eignarhlut í AGR Dynamics fyrir tæpan 1,1 milljarð sem verðmetur fyrirtækið á nærri 2,7 milljarða. AGR Dynamics, sem velti milljarði króna árið 2020 og er með um 70 starfsmenn, hefur þróað hugbúnað sem gerir söluspár fyrir heild- og smásala.

VEX keypti næst 100 prósenta hlut í Opnum kerfum, sem sérhæfir sig einkum í hýsingu- og rekstrarþjónustu tölvukerfa og sölu á vél- og hugbúnaði til fyrirtækja, á 650 milljónir króna. Skömmu síðar var greint frá samruna Opinna kerfa og Premis en samanlögð velta félaganna í fyrra var rúmlega fimm milljarðar króna.

Þá hafði komið fram í umfjöllun Viðskiptablaðsins að fjárfesting VEX í Annata hefði numið tæpum 3,3 milljörðum króna. Sjóðurinn og meðfjárfestar hans keyptu helmingshlut fyrir alls 7,4 milljarða króna.

Annata, sem velti fimm milljörðum á síðasta ári, er alþjóðlegt hugbúnaðarfyrirtæki með höfuðstöðvar á Íslandi. Hjá félaginu starfa um 200 starfsmenn á starfsstöðvum í 13 löndum. Starfsemi Annata felst í þróun og innleiðingu viðskiptahugbúnaðar í áskrift fyrir fyrirtæki í bíla- og tækjaiðnaði sem byggður er ofan á Azure skýjalausnir Microsoft.

VEX var stofnað af Trausta Jónssyni og Benedikt Ólafssyni en auk þeirra eiga tryggingafélagið VÍS og Bjarni Ármannsson, fjárfestir og forstjóri Iceland Seafood International, hlut í framtakssjóðastýringunni.

Sjóðurinn VEX I áformar að fjárfesta í fjórum til átta fyrirtækjum og að eignarhaldstími í hverju félagi verði á bilinu þrjú til sjö ár. Stærstu fjárfestarnir í sjóðnum eru Lífeyrissjóður verzlunarmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins með 18 prósenta hlut hvor.

Í umfjöllun Innherja í janúar kom fram að framtakssjóðir hefðu safnað 51 milljarði króna á síðasta ári. Það er langstærsta upphæðin frá fjármálahruni og í ljósi þess að framtakssjóðir ruddu sér ekki til rúms hér á landi fyrr en eftir hrun er óhætt að segja að aldrei hafi jafnmikið fjármagn leitað í framtaksfjárfestingar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×