Innherji

Framtakssjóðurinn VEX fjárfestir í hugbúnaðarfyrirtækinu Annata

Hörður Ægisson skrifar
Trausti Jónsson og Benedikt Ólafsson stýra fjárfestingum VEX I sjóðsins.
Trausti Jónsson og Benedikt Ólafsson stýra fjárfestingum VEX I sjóðsins.

Framtakssjóðurinn VEX I ásamt öðrum fjárfestum hafa gert bindandi samkomulag um kaup á allt að helmingshlut í hugbúnaðarfyrirtækinu Annata. Það er í dag að fullu í eigu starfsmanna sem munu áfram leiða frekari uppbyggingu félagsins.

Frá þessu er greint í tilkynningu frá sjóðastýringarfyrirtækinu VEX en þar segir að Annata, sem var stofnað fyrir 20 árum síðan, sé alþjóðlegt hugbúnaðarfyrirtæki með höfuðstöðvar á Íslandi.

Þetta er þriðja fjárfesting VEX I í hugbúnaðargeiranum frá því að sjóðnum, sem er tíu milljarðar að stærð, var komið á fót sumarið 2021 en áður hefur hann keypt í AGR Dynamics og Opnum kerfum.

Hjá Annata starfa um 200 starfsmenn á starfsstöðvum í 13 löndum. Starfsemi Annata felst í þróun og innleiðingu viðskiptahugbúnaðar í áskrift fyrir fyrirtæki í bíla- og tækjaiðnaði sem byggður er ofan á Azure skýjalausnir Microsoft. Annata hefur gert langtíma áskriftarsamninga við marga af stærstu framleiðendum og dreifingaraðilum innan þessara tveggja atvinnugreina.

Á síðustu árum hefur Annata vaxið hratt, einkum erlendis þar sem 95 prósent af tekjunum koma, eftir að fyrirtækið fjárfesti verulega í þróun á eigin skýjalausnum. Áskriftatekjur af eigin hugbúnaðarlausnum félagsins jukust um 62 prósent á milli áranna 2020 og 2021 á sama tíma og tekjuvöxtur félagsins var um 45 prósent en félagið velti rúmlega fimm milljörðum króna á síðasta ári. Hagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) er áætluð um 1,6 milljarðar árið 2021.

Nú höfum við fengið til liðs við okkur mjög öflugan fjárfesti í VEX og við hlökkum til enn frekari vaxtar og uppbyggingar á félaginu næstu ár.

„Síðustu 5 ár hafa verið ár umbreytinga hjá félaginu þar sem við lukum grundvallar breytingum á viðskipta módeli fyrirtækisins með miklum vexti erlendis, kaupum og stofnun erlendra félaga samhliða aukinni áherslu á áskrifarsölu eigin hugbúnaðar inn í bifreiða- og tækja iðnaðinn. Þetta hefur kostað mikla fjármuni sem við höfum að öllu leyti sótt úr rekstri félagsins. Nú höfum við fengið til liðs við okkur mjög öflugan fjárfesti í VEX og við hlökkum til enn frekari vaxtar og uppbyggingar á félaginu næstu ár,“ er haft eftir Jóhanni Ólafi Jónssyni, forstjóra Annata, í tilkynningunni.

Jóhann Ólafur Jónsson, forstjóri Annata en fyrirtækið velti um 5 milljörðum króna í fyrra.

Benedikt Ólafsson, annar af stjórnendum VEX ásamt Trausta Jónssyni, segir að stofnendum og starfsfólki Annata hafi tekist að byggja upp félag sem sé leiðandi á sínu sviði á heimsvísu.

 „Lausnir Annata eru hryggjastykki í rekstri viðskiptavina félagsins og mikilvægur þáttur í tæknilegri framþróun þeirra. Næstu skref félagsins í átt til frekari vaxtar eru mjög spennandi og erum við virkilega ánægð með að fá að taka þátt í þeirri vegferð með starfsmönnum félagsins,“ segir Benedikt.

Það var fyrirtækjaráðgjöf Arion banka sem var ráðgjafi VEX í viðskiptunum en erlendi fjárfestingabankinn Stifel var ráðgjafi Annata.

Auk þeirra Benedikts og Trausta eru aðrir eigendur VEX tryggingafélagið VÍS og Bjarni Ármannsson, fjárfestir og forstjóri Icelandic Seafood.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×