Innherji

Metfé til framtakssjóða og vísissjóða svalar uppsafnaðri þörf

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Framtakssjóðir ruddu sér til rúms hér á landi eftir fjármálahrunið.
Framtakssjóðir ruddu sér til rúms hér á landi eftir fjármálahrunið. VÍSIR/VILHELM

Nýir framtakssjóðir og vísissjóðir hafa á undanförnum tólf mánuðum safnað samtals 90 milljörðum króna frá fjárfestum. Aldrei áður hefur jafnmikið fjármagn leitað í fjárfestingafélög af þessum toga .

„Þetta kemur í bylgjum,“ segir Arnar Ragnarsson, forstöðumaður sérhæfðra fjárfestinga hjá Stefni sem gekk frá 16 milljarða króna fjármögnun á framtakssjóðnum SÍA IV í mars. Hann er einn af fjórum nýjum framtakssjóðum sem settir voru settir á stofn í fyrra.

Samtals hafa framtakssjóðirnir safnað 51 milljarði króna frá byrjun árs 2021. Það er langstærsta upphæðin frá fjármálahruni og í ljósi þess að framtakssjóðir ruddu sér ekki til rúms hér á landi fyrr en eftir hrun er óhætt að segja að aldrei hafi jafnmikið fjármagn leitað í framtaksfjárfestingar.

Arnar segir að árið 2021 hafi ekki verið dæmigert ár. Litlu var safnað í framtakssjóði árin á undan og því var ekki mikið fjármagn til fjárfestinga til staðar.

„Markaðurinn var síðan í hálfgerðri biðstöðu á meðan fyrirtæki og fjárfestar voru að átta sig á hver yrðu áhrifin af kórónuveirufaraldrinum. Það liðu um 18 mánuðir þar sem mörgum verkefnum var slegið á frest og lítið var um framtaksfjárfestingar. Það má því segja að komin hafi verið uppsöfnuð þörf,“ segir Arnar.

„Nú þegar við erum búin að sjá helstu áhrifin af faraldrinum og fyrirtækin hafa brugðist við breyttu rekstrarumhverfi þá erum við byrjuð að sjá söluferli og hlutafjáraukningar fara af stað á nýjan leik,“ bætir hann við.

Annar nýr sjóður er Umbreyting II í stýringu Alfa framtaks en stefnt er á að ljúka fjármögnun sjóðsins, sem verður á bilinu 10-15 milljarðar króna að stærð, á fyrsta fjórðungi þessa árs.

Gunnar Páll Tryggvason, stofnandi og framkvæmdastjóri Alfa framtaks. 

Gunnar Páll Tryggvason, framkvæmdastjóri Alfa Framtaks, á ekki von á því að mikil skörun verði milli fjárfestinga mismunandi framtakssjóða. 

Í ratsjá Alfa Framtaks eru fleiri en fimm hundruð rekstrarfyrirtæki sem uppfylla þau stærðarmörk sem sjóðastýringarfélagið miðar við.

„Þetta er stórt mengi og við höfum ekki rekist mikið á aðra framtakssjóði í fyrri fjárfestingum. Það er nóg að bíta og brenna fyrir alla þessa sjóði og auk þess hafa þeir mismunandi áherslur við að ná fram virðisaukningu“ segir Gunnar.

Þá gengu Landsbréf frá 15 milljarða króna fjármögnun á Horni IV á síðasta ári og sjóðastýringarfélagið VEX sett á stofn sinn fyrsta sjóð, VEX I, sem er 10 milljarðar króna að stærð.

Stjórnendur VEX hafa gengið hreint til verks en frá því að nýja framtakssjóðnum var komið á fót í maí 2021 hefur hann fjárfest í þremur hugbúnaðarfyrirtækjum; fyrst AGR Dynamics, síðan Opnum kerfum og nú síðast Annata.

Fjárfestingastjórar þurfa að taka í gikkinn

Á síðasta ári litu fimm nýir vísissjóðir dagsins ljós og nam heildfjármögnun þeirra 40 milljörðum króna. Eins og gildir um framtakssjóðina hefur upphæðin aldrei verið meiri.

Stærstur er sjóður Crowberry Capital sem er 11,5 milljarðar króna að stærð en þess ber að geta að sjóðurinn hyggst verja helmingi fjármagnsins til fjárfestinga á hinum Norðurlöndunum.

Kjartan Örn Ólafsson, fjárfestingastjóri hjá Brunni Ventures, sem komu á fót 8 milljarða króna sjóði í fyrra, segir að stórfelld aukning í fjármögnun vísissjóða hafi tvenns konar áhrif.

„Annars vegar eru sjóðir að bregðast hraðar við en áður. Hiki vísisjóður þá getur hann misst af spennandi fjárfestingu. Fjárfestingastjórar þurfa því að hafa hæfileika og sjálfsöryggi til að meta tækifæri hratt og örugglega, og taka í gikkinn án þess að hika,“ segir Kjartan Örn.

Kjartan Örn Ólafsson, fjárfestingastjóri hjá Brunni Ventures.

Hann vísar í eftirminnilegt atriði úr klassíska spagettísvestranum The Good, the Bad and the Ugly, þegar þorparinn Tuco liggur í baðkari eftir að hafa vegið tilræðismann sinn og segir: „Þegar þú þarft að skjóta, skjóttu! Ekki tala!“

„Hins vegar,“ bætir Kjartan Örn við, „má nefna að vísbendingar eru um að þetta aukna framboð á vísifjármagni kveiki áhuga stöðugt fleiri á frumkvöðlastarfsemi, fjölgi þar með fjárfestingatækifærum og bransinn nái jafnvægi að nýju. Vonandi er þessi aukni áhugi varanleg breyting en er ekki tískubóla sem gengur yfir, svona eins og súrdeigs-startarar á fyrstu mánuðum covid-tímans.“

Verðmöt sprota hafa ekki hækkað úr hófi

Margföldun á því fé sem vísissjóðir hafa samtals til ráðstöfunar hefur enn ekki haft mikil áhrif á verðmöt fyrirtækja sem sjóðirnir fjárfesta í.

„Sumir hafa viðrað áhyggjur af því að aukið framboð af vísipeningum og aukin samkeppni um fjárfestingar muni hækka verðmat frumkvöðlafyrirtækja úr hófi. Við hjá Brunni Ventures erum ekki að sjá það nema mögulega í undantekningartilvikum,“ segir Kjartan.

Ofan á sögulega háan öldutopp í fjármögnun vísisjóða smyr ríkið nú milljörðum til viðbótar.

Aftur móti er óheppilegt, segir Kjartan, að ríkið hafi ákveðið að stíga inn á markaðinn þegar nóg var af fjármagni fyrir. Kría, nýr ríkisrekinn sjóður sem ætlað er að styðja við fjárfestingar í nýsköpun, mun fjárfesta í þremur vísissjóðum fyrir 2,2 milljarða króna á næstu árum.

„Almennt er ég skeptískur á að ríkið stígi inn á svið sem frjáls markaður sinnir vel. En gott og vel, upplegg laganna um Kríu réttlættu tilvist hans með tilliti til þess að hann ætti að draga úr sveiflum í fjármögnun vísisjóða. En nú þegar lögin koma loks til framkvæmdar eru áhrifin þveröfug. Ofan á sögulega háan öldutopp í fjármögnun vísisjóða smyr ríkið nú milljörðum til viðbótar,“ segir Kjartan.

Sjóðir á vegum Crowberry Capital, Eyris Vaxtar og Frumtaks fá fjármagn úr Kríu en hvorki Brunnur né Iðunn sóttust eftir framlagi.

Aukin áhersla á vaxtafyrirtæki

Framtakssjóðir fjárfesta jafnan í rótgrónum rekstrarfélögum en í umhverfi lágra vaxta má búast við aukinni áherslu á fjárfestingar í vaxtarfyrirtækjum.

„Sjóðirnir okkar, Umbreyting I og II, leggja áherslu á umbreytingarverkefni eins og nöfnin gefa til kynna. Við sjáum líka aukin tækifæri í vaxtarfyrirtækjum,“ segir Gunnar Páll hjá Alfa Framtaki. Ásamt því að fjárfesta í rótgrónum rekstrarfyrirtækjum fjárfesti Umbreyting I í Nox Health, sem er í mikilli sókn á erlendum mörkuðum.

„Það er að vissu leyti afleiðing lágvaxtaumhverfisins,“ útskýrir Gunnar Páll. „Ef vextir eru mjög lágir þá skiptir minna máli hvort sjóðstreymið komi á fyrsta árinu eða fimmta árinu. En einnig hafa vísissjóðir staðið sig vel í því að skila öflugum vaxtarfyrirtækjum. Það er hlutverk framtakssjóða að hafa burði til að taka við þeim og, í einhverjum tilfellum, skila þeim inn á skráða markaðinn svo að við missum ekki fyrirtækin úr landi.“

Arnar hjá Stefni segir að sífellt séu að koma ný fyrirtæki á sjónarsviðið sem ætli sér að sækja fram á erlendum mörkuðum

„Þetta eru fyrirtæki sem eru að leita að fjármagni til að vaxa og leita til framtakssjóða til að komast á næsta stig í starfsemi sinni. Við erum að sjá mörg ný tækifæri í slíkum fyrirtækjum í bland við rótgrónari rekstrarfyrirtæki sem þurfa vitaskuld áfram að leita eftir tækifærum til að þróast og styrkja sinn rekstur,“ segir Arnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×