Skoðun

Að ná ekki endum saman

Guðmundur Ari Sigurjónsson skrifar

Í miðjum kosningahasar var ársreikningur Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2021 samþykktur í bæjarstjórn. Þar kom fram að niðurstaða bæjarsjóðs er 566 milljón króna tap samanborið við 344 milljón króna tap árið áður. Rekstrarniðurstaða bæjarsjóðs 2021 er því ein versta niðurstaða í sögu sveitarfélagsins og þarf að fara aftur til bankahrunsins til að finna ársreikning sem skilar jafn háu tapi og árið 2021 gerir.

Það vonda við stöðuna núna er það að þessi sögulega lélegi ársreikningur kemur í kjölfarið á fjögurra ára tímabili hallareksturs bæjarsjóðs sem nú hefur safnast upp í 1400 milljónir króna á fimm ára tímabili.

Hvað þýðir þetta fyrir rekstur bæjarins? Þetta þýðir að það eru ekki til peningar til að mæta þjónustukröfum íbúa, sinna viðhaldi eða sækja fram við að búa til betri bæ fyrir börnin okkar og okkur öll.

Það er rétt að taka fram að 438 milljónir af rekstrarhalla bæjarsjóðs er breyting á lífeyrisskuldbindingu þar sem búið er að endurreikna af tryggingarstærðfræðingum hvað áætlað er að bærinn muni þurfa greiða í lífeyrisgreiðslur á næstu árum. Þetta eru upphæðir sem við munum þurfa greiða en við höfum litla sem enga stjórn á.

Rekstrarniðurstaða fyrir breytingu á lífeyrisskuldbindingu er neikvæð um 128 milljónir. Það er áhugavert að setja þá upphæð í samhengi við umræðuna síðastliðið haust þar bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins mótmæltu útsvarshækkun úr 13,7% upp í 14,09%. Hækkun sem nemur 390 krónur á hverjar 100.000 krónur sem íbúi á Seltjarnarnesi er með í laun en skilar um 100 milljónum í bæjarsjóð.

Sú hækkun dugar því ekki einu sinni til að loka því rekstrargati sem Sjálfstæðismenn skilja eftir sig þegar búið er að draga 438 milljóna tap frá raunverulegri rekstrarniðurstöðu bæjarins.

Þetta er grafalvarlegt mál, bæði út frá rekstri bæjarins en líka vegna þess að Sjálfstæðismenn neita að horfast í augu við vandamálið og viðurkenna það. Það er ekki hægt að byrja leggja fram lausnir fyrr en búið er að viðurkenna vandamálið. Útsvarsprósenta Sjálfstæðismanna dugar ekki til að standa undir núverandi rekstri og þjónustu og því er ekki hægt að sækja fram og búa til betri bæ fyrir börnin okkar á meðan þau eru við stjórnvölin.

Höfundur er oddviti Samfylkingar og óháðra á Seltjarnarnesi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.