Skoðun

Fjár­festum í fram­tíðinni

Helga Dís Jakobsdóttir skrifar

Rödd unga fólksins var stofnuð fyrir rúmum fjórum árum og bauð fram í bæjarstjórnarkosningum í Grindavíkurbæ. Flokkurinn fékk rúm 19% atkvæða og var þar með næststærsta stjórnmálaaflið í bæjarfélaginu.

Síðasta kjörtímabil var vissulega viðburðaríkt enda ekki margar bæjarstjórnir sem hafa þurft að takast á við bæði heimsfaraldur og eldgos.

Framundan er nýtt kjörtímabil og stefnir Rödd unga fólksins á aukið fylgi og að komast í meirihluta.

Við hjá Rödd unga fólksins erum tilbúin til að leggja okkar að mörkum. Von okkar er að íbúar séu reiðubúnir til að ganga inn í kjörklefann með opnum hug. Okkur finnst það vera lýðræðislegt þroskamerki þegar fólk er reiðubúið að kjósa aðra flokka en það kaus í seinustu kosningum. Það benda til þess að fólk kjósi eftir að hafa tekið raunverulega afstöðu til flokkana og fólksins sem í þeim starfa að hverju sinni. Rödd unga fólksins telur mikilvægt að fá breiða skírskotun í ákvarðanatöku og telur það veita aðhald.

Rödd unga fólksins er sterk og fjölbreytt liðsheild. Ekkert sæti á okkar lista er merkilegra en eitthvað annað og hver hlekkur í keðjunni skiptir máli. Okkar bakland eru bæjarbúar Grindavíkur. Við viljum starfa í þeirra þágu og þeim til heilla. Ég er stolt af því að tilheyra svona samheldni og samstíga liðsheild eins og Rödd unga fólksins er. Mikil sjálfboðavinna liggur á bak við framboðið og allir hafa lagt á sig mikla vinnu undanfarið. Bæjarbúar Grindvíkur væru lánsamir að hafa þetta unga og kraftmikla fólk til starfa hjá sér.

Við erum ekki að hugsa næstu fjögur ár í tímann. Við horfum inn í framtíðina. Við erum framtíðin og við viljum fjárfesta í henni.

Höfundur er þjónustu- og upplifunarstjóri Nettó og oddviti Raddar unga fólksins í Grindavík.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×