Skoðun

Kæru Hafn­firðingar, takk kær­lega fyrir mig!

Valdimar Víðisson skrifar

Undanfarnar vikur hef ég farið út um allan bæ og hitt ykkur; hvort sem það hefur verið heimsókn í fyrirtæki, íþróttafélög eða félagasamtök, á fundum, á viðburðum eða á förnum vegi. Það hefur verið virkilega skemmtilegt að hitta ykkur og eiga góð og gagnleg samtöl um bæinn okkar og hvað við getum gert til að gera góðan bæ enn betri. Ég vil þakka ykkur fyrir góðar og hlýjar móttökur, þakka fyrir öll skilaboðin og hvatninguna. Þakka fyrir traustið.

Ég bauð mig fram í þetta verkefni, að leiða lista Framsóknar, þar sem ég hef brennandi áhuga á málefnum bæjarins. Á þessu kjörtímabili hef ég verið varabæjarfulltrúi og formaður í fjölskylduráði og hef því fengið að kynnast því að starfa að bæjarmálunum. Það hef ég gert samhliða því að sinna mínu aðalstarfi sem skólastjóri Öldutúnsskóla. En ég hef starfað sem skólastjórnandi í tæplega 20 ár og sem slíkur hef ég öðlast mikla reynslu í að vinna með fólki og ég veit að sú reynsla mun nýtast mér afar vel í þeim verkefnum sem bæjarfulltrúi þarf að takast á við.

Það er gott að búa í Hafnarfirði, sem er svo sannarlega fegursti fjörður í Kraganum eins og segir í laginu. Við búum í góðum bæ og ég vil vinna að því að gera góðan bæ enn betri. Ég óska því eftir þínum stuðningi í að halda áfram á þeirri vegferð.

Gerum þetta saman.

Höfundur er skólastjóri Öldutúnsskóla og oddviti Framsóknar í Hafnarfirði.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.